151. löggjafarþing — 6. fundur,  8. okt. 2020.

útgjöld til heilbrigðismála.

[11:01]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Við sem þjóðfélag stöndum frammi fyrir mjög krefjandi verkefni og það kemur í kjölfarið á því að við erum að stórbæta aðstöðuna á hjúkrunarheimilunum eftir að við hættum að láta tvo, jafnvel þrjá, vera saman í íbúð og herbergjum. Einsetningin hefur verið gríðarlega krefjandi verkefni fyrir okkur sem þjóðfélag og við erum sömuleiðis að eldast eins og ég rakti hér áðan. Þetta eru krefjandi tímar og við munum ekki losna úr viðjum þessa vanda með einum fjárlögum heldur þurfum við að gera langtímaáætlun um að gera betur. Það er hárrétt hjá hv. þingmanni að hjúkrunarheimilareksturinn hefur verið mjög krefjandi. Það lagaðist verulega með gerð rammasamnings á árinu 2016 sem við í fjármálaráðuneytinu stóðum að og við höfum sömuleiðis verið að létta milljörðum á milljarða ofan af hjúkrunarheimilum í lífeyrisskuldbindingar sem ríkið án skyldu í raun og veru tók á sig. Þannig við höfum verið að gera marga góða hluti og erum með sérstaka áherslu í stjórnarsáttmálanum á frekari uppbyggingu hjúkrunarheimila og það tekur tíma. En út af fyrir sig er rétt hjá hv. þingmanni að okkur skortir sárlega fleiri rými. Við þurfum fleiri rými. Það gengur ekki að hafa þennan fráflæðisvanda eins og hann er.