151. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2020.

mannanöfn.

161. mál
[16:40]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Forseti. Það frumvarp sem við ræðum hér vegur að íslenskri nafnahefð. Nafnahefðin, sem er einstök á heimsvísu, er eitt af okkar sérkennum sem þjóðar og fær ávallt mikla og jákvæða athygli erlendis. Verði þetta frumvarp að lögum á það eftir að kollvarpa okkar einstöku nafnahefð og öllu sem henni við kemur. Hér er lagt til að allir geti tekið upp ættarnöfn að vild. Hver verður afleiðingin? Jú, föðurnafn og móðurnafn, okkar helsta sérkenni, munu hverfa smátt og smátt. Menn og konur munu taka upp ættarnöfn og henda föðurnafni eða móðurnafni. Þetta er nauðsynlegt vegna þess að hæstv. dómsmálaráðherra hefur heyrt sögur um það að einhver vilji ekki nota föðurnafn sitt eða móðurnafn, og byggir lagafrumvarp á samtölum um einstök dæmi út í bæ sem eiga að ganga framar margra alda gamalli nafnahefð í landinu.

Árið 1996 voru millinöfn heimiluð og nú bera flestöll börn millinafn. Í skólum eru þau nánast alltaf kynnt með millinafni en föðurnafni og móðurnafni sleppt. Að leyfa ættarnöfn að vild er örugg leið til þess að hætt verður að nota föðurnafn eða móðurnafn. Nær væri að banna ættarnöfn. Árið 1996 var heimilað að nota þrjú nöfn. Hagstofan og Þjóðskrá réðu ekki við það. Hvernig verður þetta þá þegar sama manneskjan mun bera tíu nöfn? Hvernig ætla menn að leysa það þegar kemur að útgáfu vegabréfa, svo að dæmi sé tekið? Það er krafa um að nafn í vegabréfi eigi að vera það sama og í þjóðskrá. Er hæstv. dómsmálaráðherra búinn að leysa það verkefni? Það hlýtur að vera, þetta er jú forgangsmál ríkisstjórnarinnar og Sjálfstæðisflokksins á Covid-tímum. Mikilvægasta málið á eftir fjárlögum er að fá að taka upp ættarnöfn og heita eins mörgum nöfnum og maður vill og henda íslensku beygingarkerfi mannanafna í ruslið. Íslensk mannanöfn eru hluti íslensks máls og því er það stór þáttur í verndun málsins að íslensk mannanöfn samræmist íslensku beygingarkerfi.

Frú forseti. Það veldur mér miklum vonbrigðum að hæstv. forsætisráðherra, sem er mikill unnandi íslenskunnar og er fyrrum menntamálaráðherra, skuli leggja blessun sína yfir þetta mál. Það þýðir ekkert að segjast vera íslenskuunnandi en gera svo ekkert í því þegar vegið er að íslenskri nafnahefð og íslensku. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem þessi ríkisstjórn vegur að íslenskri nafnahefð, og ég skil ekki á hvaða vegferð Sjálfstæðisflokkurinn er í þessu máli.

Í greinargerð með frumvarpinu er þess getið hvaða sérfræðingar veittu ráðgjöf við samningu frumvarpsins. Ekki var leitað til okkar helsta sérfræðings á þessu sviði, dr. Guðrúnar Kvaran, prófessors emeritus í íslenskum fræðum við Háskóla Íslands, sem var lengi forstöðumaður Orðabókar Háskólans og sviðsstjóri við Stofnun Árna Magnússonar og auk þess formaður Íslenskrar málnefndar. Dr. Guðrún vann við rannsóknir á íslenskum mannanöfnum í rúma þrjá áratugi. Það hefur sjálfsagt ekki verið leitað til hennar vegna þess að hún er alfarið á móti frumvarpinu og ég hef rætt það við hana. Þetta frumvarp er ekki liður í að styðja íslenska tungu sem á undir högg að sækja eins og margoft hefur verið bent á. Nöfn og beyging þeirra eru jafn mikilvæg og allur annar íslenskur orðaforði og riðlist beygingarkerfið fer að hrikta í stoðum íslenskrar tungu. Þetta er mikilvægasta málið á stjórnarheimilinu á Covid-tímum.

Það má heita eitt af sérkennum íslenskrar menningar hve litlum breytingum nafnaforði okkar tók frá upphafi landsbyggðar og langt fram eftir öldum. Þótt ýmis heiti hafi horfið úr tísku undanfarin þúsund ár og önnur verið tekin upp er meginstofninn í mannanöfnum enn hinn sami og á dögum Ingólfs Arnarssonar. Þetta eru mikil menningarverðmæti og eitt af því sem sameinar okkur sem þjóð. Íslensk mannanafnahefð felur í sér djúpan fróðleik um forna menningu. Hana ber því að varðveita og ekki á að hlaupa til eftir breytingum. Í Hagtíðindum eru fróðlegar tölfræðilegar upplýsingar um nafnaval Íslendinga. Þar kemur m.a. fram að um 80% nafngifta byggjast á rúmlega 200 nöfnum sem sýnir að ekki er knýjandi þörf á stórfelldum breytingum. Fólk er almennt fastheldið á nöfn og reynslan sýnir að gjarnan eru valin nöfn úr fjölskyldunni eða leitað í íslenskan menningararf eftir nýju nafni. Ég held að það sé óhjákvæmilegt að þeir sem vilja standa að lagabreytingum um mannanöfn geri sér grein fyrir því að breytingar á mannanafnalögum séu líklegar til að hafa meiri háttar áhrif á mannanafnahefðir. Ég er sannfærður um að það vill þjóðin ekki.

Frumvarpið gerir ráð fyrir því að mannanafnanefnd verði lögð niður. Ef ágreiningur verður um mál þá sker Þjóðskrá úr eða hægt verður að leita til Stofnunar Árna Magnússonar. Eru þá ekki komnar tvær nefndir? Ég spyr, frú forseti. Ef mannanafnanefnd verður lögð niður þá eigum við eftir að sjá mörg ný nöfn koma fram á sjónarsviðið sem við höfum ekki ímyndunarafl til að láta okkur detta í hug í dag að verði notuð. Sá menningararfur okkar sem felst í tungumálinu er einstakur. Það er t.d. stórmerkilegt að hægt sé að nota greiningarbúnað fyrir nútímamál óbreyttan á fornmálið. Þessu samhengi megum við alls ekki glata. Íslenskunni stendur ógn af örri þróun í upplýsinga- og samskiptatækni. Íslenskan á í vök að verjast. Íslenskan þarf ekki á þessu frumvarpi að halda. Menningararfur er eitthvað það sem tengir okkur við fortíðina, rætur okkar, og gengur inn í sjálfsmynd okkar. Hugmyndin um íslenskan menningararf er þannig nátengd hugmyndinni um íslenskt þjóðerni. Íslendingar voru í senn frjálslyndir og íhaldssamir þegar kom að nafngiftum eftir kristnitökuna. Íslensk menning var traust og kristinn siður samræmdist tungu okkar og menningu á ýmsa lund. Heiðin mannanöfn, jafnvel þau sem minntu á fornan átrúnað, nutu þess hve frjálslyndir og íhaldssamir Íslendingar reyndust vera eftir siðskiptin. Þannig glötuðu Þórsnöfnin ekki vinsældum sínum við kristni. Þegar Íslendingar kynntust kristnum bókmenntum fór að bera á nöfnum sem sótt voru til ýmissa kirkjulegra rita.

Áhugi þjóðarinnar á uppruna og merkingu nafna er ekkert nýmæli. Í Hauksbók sem var skráð snemma á 14. öld er þess getið að því fylgdi gæfa og sigur að draga af nöfnum guðanna nöfn sona sinna, svo sem af Þórs-nafninu. Þótti það líklegt til langlífis og heilla. Í Fóstbræðra sögu er látið liggja að því að heiti manns og eðli fari saman. Þar segir „Svo er hver sem heitir.“ Yfirleitt láta foreldrar sér annt um að velja börnum sínum góð eða fögur nöfn, þótt hitt vilji einnig brenna við að fólk geri sér ekki alltaf grein fyrir því að annarleg nöfn geti haft slæm áhrif fyrir viðkomandi barn. Sjálfstæðisbarátta Íslendinga á 19. öld hafði talsverð áhrif á nafngiftir og nöfn voru í auknum mæli sótt til fornbókmennta og goðafræði. Rétt væri að Sjálfstæðisflokkurinn hefði þetta í huga nú þegar hann vill leggja niður íslenska nafnahefð.

Ég sagði það hér í upphafi að þetta væri ekki í fyrsta sinn sem þessi ríkisstjórn vegur að íslenskri nafnahefð. Með nýlegri samþykkt laga um kynrænt sjálfræði var ákvæði um að stúlkum skuli gefa kvenmannsnafn og drengjum karlmannsnafn fellt úr gildi. Mannanafnanefnd, sem er skipuð okkar færustu sérfræðingum, sagði um það mál að með þessu hefði verið vegið að íslenskri nafnahefð að því leyti að nú væri hægt, sem dæmi, að nefna dreng Þorgerði og stúlku Sigurð. Nú þegar karlmaður má heita Guðrún, hvernig á að beygja það? Veit hæstv. dómsmálaráðherra það? Þessi breyting hafði heilmikil áhrif á beygingarkerfið. Það var ekki nauðsynlegt að fara þessa leið. Það hefði verið hægt að gera málamiðlun, að við hlið skilgreindra kvenmanns- og karlmannsnafna mætti bæta við flokki nafna, þar sem fyrst og fremst væri um að ræða tökunöfn sem gefa mætti bæði stúlkum og drengjum. Hér hefði átt á líta til danskra nafnalaga sem fordæmis.

Mennta- og menningarmálaráðherra kynnti í ágúst 2017 verkáætlun um máltækni fyrir íslensku árin 2018–2022. Með verkáætluninni er meðal annars stefnt að því að tryggja veg og viðgang íslenskrar tungu. Það kann því að skjóta skökku við að á Alþingi sé lagt fram frumvarp af hálfu dómsmálaráðherra og með blessun ríkisstjórnarinnar sem beinlínis vinnur gegn þessu. Er þetta erindi Sjálfstæðisflokksins á Alþingi, að vega að íslenskri nafnahefð? Maður spyr sig. Með því að fella brott ákvæði þess efnis að nöfn stangist ekki á við íslenskt málkerfi er opnað fyrir möguleikann á því að tungumálið, og nöfn þar á meðal, fái að taka breytingum og þróast. Mikilvægt er að vernda og varðveita íslenska tungu. Þannig eru til reglur um stafsetningu og málfræði og því engin ástæða til að undanskilja mannanöfn. Andi frumvarpsins er frjálslyndur og kemur það beinlínis fram í frumvarpinu. Fólki er treyst til að viðhalda menningu og siðum sem hafa merkingu fyrir það sem hluta af stærri heild. Með sömu rökum hlýtur hæstv. dómsmálaráðherra væntanlega að vilja afnema reglur um stafsetningu og fela þjóðinni vald til að stafsetja orð eftir eigin höfði. Það verður ef til vill næst á dagskrá ríkisstjórnarinnar. Það er mótsögn í að vilja varðveita íslenska tungu og fela síðan einstaklingum fullkomið frelsi til að stafsetja nafn sitt. Mannanafnanefnd hefur lagt áherslu á þetta.

Leitun er að foreldrum sem láta sig einu gilda hvaða nöfn þau gefa börnum sínum. Foreldrar vanda sig jafnan þegar kemur að því að velja barni nafn eða nöfn. Endanleg ákvörðun er sennilega oftast tekin í fullri sátt foreldra. Í undantekningartilvikum óska foreldrar eftir því að nota nafn eða nöfn sem ekki er að finna á skrá um leyfileg mannanöfn í íslensku eða rithátt þeirra. Í lögum um mannanöfn er farvegur þangað sem slíkum erindum er beint og úrskurðað um vafatilvik. Í flestum tilvikum er afgreiðsla fremur einföld en stundum bregður svo við að nöfnin sem sótt er um eru ekki í samræmi við lög og þeim er því hafnað. Höfnun er í eðli sínu sár, það skal sagt. En athygli vekur að jafnvel nöfn sem ekki hefur verið hafnað en ástæða hefur þótt til að láta reyna á eru oft alls ekki notuð þegar til kastanna kemur. Þetta hefur mannanafnanefnd bent á. Þá virðist sem almennt sé ekki kunnugt að flestir úrskurðir mannanafnanefndar snúa að rithætti nafna, hvort heimilt sé að rita íslenskt nafn andstætt íslenskri stafsetningu og málvenju. Mannanafnanefnd telur ljóst að þar ættu þeir almannahagsmunir að vernda íslenska tungu og málfar að vega þyngra en réttur einstaklingsins til að rita nafn sitt þvert á reglur og málvenjur.

Örfá dæmi um úrskurði mannanafnanefndar hafa verið áberandi í fjölmiðlum síðustu ár en þau gefa ekki rétta mynd af starfsemi nefndarinnar. Frelsi er hugtak sem oft bregður fyrir í umræðum um mannanöfn og í frumvarpinu er lögð áhersla á það. Gott og vel. En hvort gengur framar, fullkomið frelsi eða varðveisla íslenskrar nafnahefðar og íslenskrar tungu? Hvers vegna getum við þá ekki bara stafsett á þann hátt sem okkur líkar best? Hvað mælir gegn því að við notum aðra leturgerð en við erum vön? Leiðirnar eru vissulega fjölmargar en augljóst er að óhagkvæmni sem hlýst af ótakmörkuðu frelsi í þessum málaflokki leiðir til glundroða. Og það er sú vegferð sem ríkisstjórnin er á með þessu frumvarpi. Leið glundroða með okkar dýrmætasta menningararf, mannanafnahefðina og tungumálið.

Alþingi verður að starfa í samræmi við lög sem það hefur sjálft samþykkt og gilda í landinu. Nægir þar að vísa til heildarlaga um íslenskt mál, laga um örnefni, auglýsinga um stafsetningu og setningu greinarmerkja og námskrá handa leik-, grunn- og framhaldsskólum. Mannanafnanefnd hefur árum saman orðið fyrir aðkasti fyrir það eitt að fara að lögum. Hún hefur fengið lítinn stuðning, aðeins skammir fjölmiðla og annarra þeirra sem lítið vita um hvað málið snýst.

Frú forseti Ég legg til að frumvarpið verði lagt til hliðar og Alþingi feli nefnd sérfræðinga að fara yfir núgildandi lög og laga þau skynsamlega að breyttum tímum en þó með tilliti til varðveislu íslenskrar tungu. Frumvarp þetta er beinlínis skaðlegt íslenskri mannanafnahefð og íslenskri tungu og er Miðflokkurinn alfarið á móti því.