151. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2020.

mannanöfn.

161. mál
[17:16]
Horfa

Þórunn Egilsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Hér ræðum við enn um frumvarp til laga um mannanöfn. Það er ekki í fyrsta skipti. Oft hafa átt sér stað reglulega skemmtilegar umræður um þetta mál. Hér hafa verið haldnar langar og miklar ræður um þetta allt saman og menn jafnvel haldið að hér væri verið að kollvarpa íslenskri nafnahefð. Það er ekki mín tilfinning eftir að hafa rýnt í þetta mál um leið og ég vil taka fram að ég tel mikilvægt að viðhalda íslenskum hefðum og verja íslenska tungu af því að við þurfum að verjast á ýmsum vígstöðvum, t.d. í sjónvarpi, útvarpi, í tölvuleikjum og öðru slíku og mér þykir ensk tunga vera farin að lita okkar mál fullmikið oft og tíðum.

En það er ýmislegt í frumvarpinu sem er jákvætt. Við búum og lifum í breyttu samfélagi. Það sem við tókum upp hér á síðastliðnu ári, þ.e. þegar einstaklingur hefur hlutlausa kynskráningu í þjóðskrá þá er honum heimilað að nota nafn föður eða móður í eignarfalli eða kenninafn án viðbótarinnar -son, -dóttir eða -bur. Síðastnefnda endingin á kenninafni var heimiluð með sömu löggjöf. Sömuleiðis voru reglur um nafnabreytingu samhliða breytingum á skráningu kyns í þjóðskrá rýmkaðar. Þetta er einn af þeim hlutum sem við erum að mæta af því að við lifum í breyttu samfélagi og komin eru önnur viðmið og við samþykkjum aðra hluti en við gerðum hér áður og það er vel, það er gott. Málið okkar, samfélagið okkar á allt að þróast og íslensk mannanafnahefð er ein stoðin í samfélagi okkar. En engu að síður þurfum við að þora að breyta til og stíga skref áfram.

Mönnum hefur verið tíðrætt um ættarnöfn. Ég get tekið undir með þeim þingmönnum sem rætt hafa það hér á undan, en ég sé nú ekki beint ástæðu til þess að við förum að taka upp ættarnöfn í stórum stíl. Vera má að það sé bara eitthvað sem ég þekki ekki og vitna ég þá kannski til ræðu sem ég hef haldið hér áður þar sem ég taldi upplagt að sú sem hér stendur tæki upp ættarnafnið Þverdal og vísa ég þá í orð þingmannsins sem stóð hér í púlti á undan mér, hv. þm. Ara Trausta Guðmundssonar og fleiri þingmanna, þar sem eitthvað var tekið úr umhverfi manna eða eitthvað í eiginleikum eða annað slíkt, og vísa ég þá ekki eingöngu til útlits míns heldur þess að ég bý við Þverfellsdal. En það er nú önnur saga og má segjast annars staðar en hér.

En það er eitt sem ég vil vekja athygli á í frumvarpinu, sem mér finnst vera jákvætt og ég er ekki viss um að hafi verið imprað á hér áður, að nú verður samkvæmt þessu heimilt með leyfi Þjóðskrár Íslands að fósturbarn, sem er í varanlegu fóstri hjá fósturforeldrum, sé kennt til fósturforeldris. Þá þarf að leita samþykkis kynforeldra barnsins, ef unnt er, áður en ákvörðun er tekin um slíkt leyfi, svo að ég vísi beint á blaðsíðu 3 í frumvarpinu. Þar kemur einnig fram að ef kynforeldri er ekki samþykkt breytingu á kenninafni getur Þjóðskrá Íslands engu að síður leyft breytinguna ef það er talið í samræmi við hagsmuni og vilja barns. Þetta tel ég vera mjög jákvætt og veit um hóp barna sem myndu vilja skoða þetta, og vinna þarf nánar með þetta. Það er því ýmislegt jákvætt í þessu. Eins kemur fram í frumvarpinu getur barn yngra en 15 ára með samþykki þeirra er fara með forsjá þess eða sérfræðinganefndar samkvæmt 9. gr. laga um kynrænt sjálfræði breytt eiginnafni sínu og kenninafni samhliða breytingu á skráningu kyns. Breyting á nafni samkvæmt lögum þessum tekur ekki gildi fyrr en hún hefur verið færð í þjóðskrá.

Ýmislegt fleira er í þessu og margt jákvætt þannig að við skulum ekki vera hrædd við að ræða þessi mál og skoða þau áfram af því að við þurfum að aðlagast því hvernig hefðir verða til, hvernig samfélagið myndar þær og hvernig við samþykkjum þær. Hefðir verða ekki til og hefðir viðhaldast ekki nema við höfum þekkingu á þeim. Við erum ánægð með hefðina og við viljum viðhalda henni. Ef við viljum viðhalda íslensku mannanafnahefðinni þá hef ég ekki áhyggjur af því. Ég held að við viljum halda þessu áfram og í megindráttum halda okkur við málin eins og við höfum haft þau. Ég legg til að nefndin skoði þetta vel og farið djúpt ofan í þetta.

En eins og ég nefndi áðan, hæstv. forseti, koma ógnirnar við tunguna víða að, ef við getum talað um ógn sem slíka. Það er t.d. hvernig við förum með nöfn innflytjenda. Mér hefur verið bent á það að t.d. á fótboltaleikjum nota lýsendur fyrstu nöfn Íslendinganna, eiginnöfn Íslendinga, en tala svo alltaf um útlendinga eða þá sem koma annars staðar frá og nota þá eftirnafnið þeirra í lýsingum. Þarna er ekki samræmi. Ég veit um kennara sem hafa fengið nemendur inn í bekki til sín með sín nöfn náttúrlega — og eru nátengd þeim og þykir vænt um nöfnin sín — og aðstoða þá við að laga þau að íslenskri hefð og hjálpa þeim að beygja þau samkvæmt henni. Ég held að þetta sé líka hlutur sem við þurfum að skoða, hvernig við ætlum að fara með það. Ég bið nefndina um að skoða þetta vel, fara vel ofan í málið, eins og ég veit að nefndin mun gera.