151. löggjafarþing — 9. fundur,  15. okt. 2020.

almannatryggingar.

28. mál
[16:30]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Frú forseti. Við höfum nú hlýtt á fyrsta flutningsmann þess ágæta frumvarps, breytingar á lögum um almannatryggingar, nr. 100/2007, með síðari breytingum, skerðingar á lífeyri vegna búsetu. Hafi hann hjartans þökk fyrir. Það er í rauninni fagnaðarefni að frumvarpið skuli vera komið fram og kannski er það síðbúið svar við ákalli breyttra tíma. Íslendingar eru mikið á faraldsfæti og dvelja og búa langdvölum erlendis. Sömuleiðis velur sér búsetu á Íslandi í æ ríkari mæli fólk sem á rætur annars staðar. Þetta er þess vegna hagsmunamál, bæði fyrir innfædda Íslendinga og Íslendinga sem eiga rætur í öðru landi eða öðrum löndum. Þetta er réttlætismál og réttindamál og fer í grunninn bæði yfir höf og lönd og margvísleg landamæri.

Herra forseti. Íslendinga er að finna um alla jörð. Víða flækist frómur. Það er jákvætt og nauðsynlegt í okkar litla eylandi að fara um og auka víðsýni, auka við menntun, bæta við reynslu. Allt þetta samneyti við aðrar þjóðir styrkir bara genasafnið. Það eru yfir 46.000 íslenskir ríkisborgarar með skráða búsetu í útlöndum. Flestir eru auðvitað á Norðurlöndum, þar af flestir í Danmörku og þar næst í Noregi. Yfir 60% af Íslendingum sem eru búsettir í útlöndum búa á Norðurlöndunum. Í 20 ríkjum er að finna Íslendinga, einn af hverri sort, og Íslendinga er að finna í 108 ríkjum af 193 aðildarríkjum Sameinuðu þjóðanna. Þetta skiptir því kannski svolitlu máli í því samhengi sem við ræðum þetta í dag.

Þegar um er að ræða réttindi í lífeyriskerfinu skiptir líka máli hvar fólk velur sér búsetu. Það er ekki sama hvar fólk velur að setja sig niður. Það á sitt hvað við t.d. Bandaríkin og Evrópulönd. Ísland er með samninga við flest velferðarríki um lífeyri, annaðhvort í gegnum EES, EFTA eða tvíhliða samninga. Skerðingar, litlar upplýsingar um lífeyri eða hugsanlega enginn lífeyrir myndi varða þá aðila sem hafa haft búsetu í öðrum löndum en þau sem við höfum gert samninga við. Hv. flutningsmaður, Guðmundur Ingi Kristinsson, kom inn á það að mikill efi væri um hvort þetta snerti bæði öryrkja og ellilífeyrisþega. Hann fullyrti að þetta ætti eingöngu við um ellilífeyrisþega. Ekki vil ég fullyrða neitt um það en það er alvarlegt ef svo er. Auðvitað er réttlætismál að þetta eigi við um hvort tveggja.

Þegar fólk flyst frá Íslandi skiptir máli, eins og áður greinir, hvort flutt er til EES-lands eða ekki og hvort samningar á sviði almannatrygginga séu til staðar milli Íslands og viðkomandi lands. Lífeyrisþegi sem flytur til að mynda til annars EES-lands heldur lífeyrisgreiðslum sínum frá Tryggingastofnun en greiðslur vegna félagslegrar aðstoðar, eins og heimilisuppbótar, falla niður við flutning. Ef lífeyrisþeginn flytur til lands sem tilheyrir ekki EES falla allar greiðslur niður ef enginn samningur er til staðar á sviði almannatrygginga og verður að sækja þann rétt eftir öðrum leiðum. Það er mikið umhugsunarefni.

Eins og hv. flutningsmaður kom inn á voru samþykkt í vor á Alþingi lög um félagslegan viðbótarstuðning við aldraða sem var líka fagnaðarefni og áralangt baráttumál eldri borgara. Verulegur hópur býr við mjög skarðan hlut og við hreina fátækt. Lögin veita rétt á framfærslustuðningi sem nemur allt að 90% af fjárhæð fulls ellilífeyris, eins og hv. flutningsmaður kom inn á. Sá stuðningur er ætlaður þeim sem vegna búsetu sinnar erlendis eiga ekki rétt á fullum ellilífeyri. Það er nauðsynlegt kappsmál að tryggja þessum aðilum aukin réttindi, upp í 100%, til að þeir nái upp í fulla framfærslu. Það er ekki mikið borð fyrir báru þegar um greiðslur úr lífeyristryggingum okkar er að ræða. Þetta var ágætt fyrsta skref og ísinn var brotinn en við megum ekki linna látum fyrr en við bætum að fullu að hag þessa hóps.

Eins og hv. flutningsmaður kom inn á hefur verið tekist á um reikniregluna sem á að beita. Það er búið að staðfesta fyrir dómi að Tryggingastofnun ríkisins varð á á því sviði. Vanda þarf vel alla þá vinnu sem lýtur að útreikningi réttinda. Þetta er sérstaklega áhugavert og athugunarvert gagnvart öryrkjum. Ég verð að játa að ég taldi ljóst að þetta ætti við um báða hópa. Um það er dálítið fjallað í 17. gr. laganna. Sú grein leggur til grundvallar að full réttindi til ellilífeyris ávinnist með búsetu hér á landi í a.m.k. 40 ár, þ.e. frá aldrinum 16–67 ára. Og ef viðkomandi hefur búið hér skemur skerðast réttindin hlutfallslega. Við erum auðvitað líka alltaf, og ekki síður, að tala um þann hóp þegnanna sem á rætur erlendis en hefur búið og starfað hér á landi áratugum saman og örugglega hlotið ríkisborgararétt og full almenn samfélagsleg réttindi. Við áttum okkur auðvitað líka á því í öllum tilvikum — og við hugleiðum það og Tryggingastofnun sömuleiðis — að þeir sem hafa búið eða starfað erlendis gætu hafa áunnið sér lífeyrisréttindi í því búsetulandi. Það eru mörg dæmi um að menn hafa áunnið sér allgóð réttindi í öðru landi enda liggur það þá ljóst fyrir þegar Tryggingastofnun tekur til sinna ráða. En alltaf gildir það sama um réttindin, þ.e. hvort samningar gildi á milli landanna. Þegar sótt er um lífeyri frá öðru EES-landi eða Bandaríkjunum er umsókn skilað til Tryggingastofnunar sem sér um að sækja réttindi til viðkomandi stofnana. En það á ekki við um önnur lönd utan EES. Bandaríkin og Kanada eru þar undan skilin. Þar þarf viðkomandi að sækja rétt sinn sjálfur án milligöngu Tryggingastofnunar. Það getur áreiðanlega verið mjög snúið fyrir margan.

Virðulegur forseti. Eins og ég nefndi er umhugsunarefni ef vafi leikur á því hvort þetta á bara við um ellilífeyrisþega en ekki öryrkja. Ég átta mig ekki á því og það mun skýrast í umfjöllun nefndarinnar. Hv. flutningsmaður kom stuttlega inn á samskipti við Tryggingastofnun ríkisins og við höfum lesið nýútkomna skýrslu um þjónustu stofnunarinnar og samskipti hennar við skjólstæðinga sína. Þar eru margar ábendingar. Sumar þeirra eru nokkuð alvarlegar, sérstaklega hvað varðar of hátt hlutfall skjólstæðinga sem leita þurfa til úrskurðarnefndar velferðarmála og hvað Tryggingastofnun er gerð afturreka með mörg mál. Það undirstrikar kannski það sem kemur fram í þessari skýrslu og það sem ríkisendurskoðandi reifar, hvort rétt sé að hugleiða að skipta lögunum upp þannig að sérstök lög gildi um ellilífeyri og önnur um greiðslur til öryrkja og fólks með skerta færni. Þetta eru svo umfangsmikil mál. Þótt við tölum oft um þessa tvo hópa í sömu andránni eru mál þeirra oft afar ólík og það þarf tvenns konar nálgun.

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa þetta öllu lengra. Inntak frumvarpsins er jákvætt og uppbyggilegt og til þess fallið að taka af vafa sem uppi hefur verið um alllanga hríð. Hv. flutningsmaður bendir á veikleika. Það er brýnt að eyða vafa eins og hægt er, að réttindin séu klár og skýr og að þeir einstaklingar sem í hlut eiga fái áreiðanlegar upplýsingar og skilvirka þjónustu stofnunar okkar á Íslandi sem hefur þetta verkefni með höndum. Á því hefur orðið einhver misbrestur og viðmótið sem skjólstæðingar mæta er ekki alltaf það sem við viljum sjá.

Þingflokkur Samfylkingarinnar styður því inntak þessa frumvarps og væntir mikils af umfjöllun í velferðarnefnd sem vonandi skilar að nýju afurð til þingsins sem allra fyrst svo að við getum samþykkt þetta sem lög frá Alþingi.