151. löggjafarþing — 11. fundur,  20. okt. 2020.

loftslagsmál.

[15:01]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Við ræðum eitt af allra stærstu viðfangsefnum samtímans. Sektargreiðslurnar sem við greiðum bitna fyrst og fremst á umhverfi okkar, á jörðinni okkar. Þetta er nefnilega risastórt mál og við þurfum að bregðast við með áhrifaríkum hætti. Ég tel að við séum að gera það. Við þurfum að draga úr útblæstri og við þurfum að binda kolefni.

En ég ætla að tala um annan hlut sem er að við þurfum líka að búa okkur undir þær breytingar sem eru óhjákvæmilegar. Það er alveg ljóst að það er ýmislegt sem er að breytast og mun breytast þrátt fyrir að við náum þeim markmiðum sem við höfum sett okkur, m.a. í Parísarsáttmálanum.

Íshellan á norðurskautinu hefur aldrei mælst minni. Á aðeins örfáum árum hefur íshellan minnkað um flatarmál sem nemur Frakklandi, Spáni, Þýskalandi, Póllandi og Ítalíu samanlagt. Þetta er að gerast fyrir norðan okkur. Við erum nefnilega norðurslóðaríki og þetta skiptir okkur rosalega miklu máli. Hvað vitum við um fiskgengd í framtíðinni? Hvað vitum við um þau áhrif sem þetta mun hafa á hafið, matarkistu okkar sem við höfum byggt allt okkar á?

Þetta er auðvitað stóra málið sem við þurfum að fást við og ég hef trú á því að við séum að gera margt mjög gott. Án efa gætum við gert betur. Þetta er auðvitað samstarf ríkisins en það eru líka sveitarfélögin, það eru fyrirtækin og það er ánægjulegt að sjá að atvinnulífið hefur raunverulega kveikt á perunni varðandi það hversu miklu máli skiptir að vera sjálfbær og horfa til hringrásarhagkerfisins.

En þrátt fyrir þá ógn sem loftslagsváin veldur er alveg ástæða til þess að vera bjartsýn á framtíðina. Það er engin þörf á heimsendaspá. Við eigum nefnilega nýta vísindi og þekkingu. Við höfum aldrei vitað jafn mikið um stöðu mála og við vitum í dag. Við þurfum að hlusta og við erum að hlusta.