151. löggjafarþing — 14. fundur,  22. okt. 2020.

kostnaður í heilbrigðiskerfinu.

[11:03]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Forseti. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir svörin. Jú, það er rétt, það eru ekki tíðindi að fjármálaráðherra tjái sig með þessum hætti. En ég er ekki að spyrja um orð hans heldur hvort hann ætli að halda áfram að styðja þessa stefnu í verki. Og af því að hæstv. fjármálaráðherra nefnir að hér sé stundum verið að ræða einstakar dæmisögur þá er það nú þannig að það liggur fyrir fyrirspurn frá þingmanni innan hans eigin raða um hversu margar slíkar aðgerðir hafi verið framkvæmdar á tímabilinu 2016–2019. Það eru 100, að mig minnir, liðskiptaaðgerðir og 90 mjaðmaliðaaðgerðir. Þetta eru ekki einstakar dæmisögur, þetta er stefna og þetta er framkvæmd.

Mig langar þá að ramma inn fyrri spurningu, hvort ráðherra geti ekki séð það fyrir sér í þessu ástandi að hann geri meira en að tala fyrir þessu, að hann fari að beita sér fyrir þessu. Þetta er ekki eina vandamálið. Þetta er ekki stærsta vandamálið. En í stöðu sem þessari held ég að við getum farið að gera kröfu um það að við horfum á málin og nálgumst þau með öðrum hætti.