151. löggjafarþing — 16. fundur,  5. nóv. 2020.

sóttvarnaráðstafanir, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[12:20]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (U):

Herra forseti. Þetta er áhugaverð umræða og kannski sér í lagi áhugavert að sjá hér málflutning fulltrúa Sjálfstæðisflokksins og samræður eða núning hennar við hæstv. heilbrigðisráðherra áðan en ég legg það aðeins til hliðar.

Í því ástandi sem við lifum við er gríðarlega mikilvægt, og margir hafa komið upp og sagt það, að hafa svona reglubundna skýrslugjöf til þingsins frá hæstv. heilbrigðisráðherra um sóttvarnaráðstafanirnar. Það er gott að reglulegt framhald verði á því það sem eftir er af þessu haustþingi og hugsanlega á vorþingi líka. Komið var inn á málefni skólanna áðan og ég vil fylgja því aðeins nánar eftir og spyrja hæstv. ráðherra um málefni framhaldsskólanna. Skólastarf í grunnskólum hefur verið aðdáunarvert, við höfum haldið því nánast óslitnu sem hefur skipt gríðarlega miklu máli fyrir bæði börn og foreldra og aðra. Tæplega 23.000 framhaldsskólanemar eru hins vegar á fimmtu viku fjarkennslu og verða í fjarkennslu fram að áramótum og þrátt fyrir þessar miklu skerðingar á hinni hefðbundnu kennslu í allt haust hefur lítið heyrst í þeim hópi, ólíkt öðrum hagsmunahópum á borð við bareigendur og eigendur líkamsræktarstöðva. Því miður gefa tölur og vísbendingar til kynna að strax sé farið að bera á brottfalli framhaldsskólanema vegna Covid, sem eru mjög alvarleg tíðindi, og það getur haft langvarandi samfélagsleg áhrif. Óvissa í námi í heimsfaraldri hefur að auki áhrif á geðheilsu og andlega líðan ungra krakka. Ég spyr því hæstv. heilbrigðisráðherra hvort hún taki undir með mér að málefni framhaldsskóla verði að vera í algjörum forgangi þegar afléttingar á sóttvarnaaðgerðum hefjast. Hæstv. menntamálaráðherra deildi þeim áhyggjum með mér hér í þingsal í gær og staðhæfði að hún myndi tryggja að sá hópur verði í forgangi þegar afléttingar á sóttvarnaaðgerðum hefjast.

Er hæstv. heilbrigðisráðherra sammála þessu og mun hún beita sér fyrir því að framhaldsskólanemendur verði sá forgangshópur sem þeir þurfa að vera?