151. löggjafarþing — 18. fundur,  12. nóv. 2020.

þjónusta sérgreinalækna á landsbyggðinni.

[12:04]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir gagnlega umræðu og þakka hv. þingmanni fyrir frumkvæðið, sem er afar mikilvægt. Ef ég reyni að ná utan um málið hér í þessari stuttu lokaræðu þá er lykilatriði í heilbrigðisstefnu og nýrri heilbrigðislöggjöf og -reglugerð ábyrgð umdæmisstjóranna, þ.e. forstjóranna í hverju heilbrigðisumdæmi, að gera þarfagreiningu á því hvaða sérgreinaþjónustu þarf að veita í umdæminu af því að það er mismunandi eftir umdæmum, eftir því hversu nálægt við erum á höfuðborgarsvæðinu eða Eyjafjarðarsvæðinu ef því er að skipta. Síðan þegar þarfagreiningin liggur fyrir myndi stofnunin gera samninga við Landspítala eða Sjúkrahúsið á Akureyri, það er langtryggast, um veitingu þessarar þjónustu í gegnum fjarheilbrigðisþjónustu eða viðveru sérfræðinga. Þá erum við með faglegt, öruggt bakland gagnvart þeirri þjónustu sem veitt er.

Þetta verður auðvitað ekki til þess að hægt sé að klára málið á einu bretti, ég er alveg klár á því. Við þurfum að skoða fjármögnun á málin o.s.frv., en við sjáum mjög marga sprota nú þegar í kerfinu. Sumir eru gamlir og hafa lengi verið í gangi eins og það að Heilbrigðisstofnun Norðurlands fær bæklunarlækna frá Sjúkrahúsinu á Akureyri og um það hafa verið samningar í mjög langan tíma á Sauðárkróki. Heilbrigðisstofnun Austurlands fær geðlækna núna frá Sjúkrahúsinu á Akureyri og fleiri slík verkefni eru í gangi. Ég nefndi áðan geðlæknaþjónusta vestur á Vestfirði. Þetta er allt saman í gangi og það er vaxandi. Hér er oft talað um samninga sem tengjast endurhæfingarþjónustu Ljóssins. Þetta er allt að gerast vegna þess að við erum með það að leiðarljósi að það á að jafna þjónustuna óháð búsetu. Það eru skýr samningsmarkmið hjá mér í samningum við sérgreinalækna að tryggja jafnara aðgengi að heilbrigðisþjónustu úti um land. Það er auðvitað hægt að gera það en það getur ekki verið meginleiðin. Meginleiðin þarf að vera traustari en svo. Og ef ekki er hægt að jafna aðgang með þessum aðferðum (Forseti hringir.) þá verðum við að gera enn þá betur í almennri fjarheilbrigðisþjónustu og auðvitað tryggum sjúkraflutningum sem eru lykilatriði.

Svo má ég til með að nefna nýtt sjúkrahótel sem hefur verið að sinna gríðarlegum fjölda af fólki sem hefur þurft að koma hingað suður til að nýta heilbrigðisþjónustu.