151. löggjafarþing — 18. fundur,  12. nóv. 2020.

fiskeldi.

265. mál
[12:12]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi um breytingu á lögum um fiskeldi, nr. 71/2008, varðandi heimild til úthlutunar á vannýttum lífmassa í fiskeldi. Tilefni framlagningar þessa frumvarps er það að eftir setningu laga nr. 101/2019 kom í ljós að þær aðstæður geta verið fyrir hendi að ómögulegt sé að ráðstafa ákveðnu magni af lífmassa í fiskeldi innan burðarþols einstakra fjarða og hafsvæða á grundvelli gildandi laga eða með úthlutun eldissvæðis samkvæmt fiskeldislögum.

Með frumvarpinu er því mælt fyrir um heimild ráðherra til að úthluta opinberlega vannýttum lífmassa sem verði forsenda umsóknar um nýtt eða endurskoðað rekstrarleyfi í firði eða á hafsvæði þar sem fiskeldi er þegar stundað.

Virðulegi forseti. Ég mun nú víkja að meginefni frumvarpsins. Í því er lagt til að við 4. gr. a fiskeldislaga bætist ný málsgrein þar sem kveðið er á um að heimilt sé að úthluta opinberlega því magni í lífmassa, sem heimilt getur verið að ala, í einstökum fjörðum eða hafsvæðum og er umfram heimildir í rekstrarleyfum fiskeldis og heimildir sem veittar kunna að verða á grundvelli umsókna sem til meðferðar koma samkvæmt ákvæði til bráðabirgða II við fiskeldislögin. Þá er kveðið á um að við útboð sé skylt að setja lágmarksverð. Við mat á tilboðum gilda fyrirmæli 3. mgr. 4. gr. a í fiskeldislögum.

Eins og nefnt var í upphafi kom í ljós við setningu laga nr. 101/2019 að þær aðstæður geta verið fyrir hendi í einstökum fjörðum eða hafsvæðum að heimildir samkvæmt rekstrarleyfum fiskeldis séu fyrir lægri hámarkslífmassa en sem svarar til hámarksnýtingar fjarðar eða hafsvæðis. Hér er því um að ræða hafsvæði eða firði þar sem fiskeldisstarfsemi er þegar til staðar en ekki er mögulegt að rúma allt burðarþol svæðisins innan gildandi rekstrarleyfa. Í dag eru slíkar aðstæður fyrir hendi í Arnarfirði, Berufirði, Fáskrúðsfirði og Reyðarfirði. Samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum gæti magn í slíkum útboðum í þessum fjórum fjörðum að hámarki orðið um 12.700 tonn. Er ákvæðum frumvarpsins í fyrsta lagi ætlað að ná til þeirra tilvika þar sem úthlutun eldissvæða, samkvæmt 2. mgr. 4. gr. a fiskeldislaga, er ekki möguleg.

Í öðru lagi nær frumvarpið til þeirra tilvika þar sem ómögulegt er að ráðstafa þeim lífmassa sem um ræðir á grundvelli gildandi laga þar sem skilyrði til hækkunar rekstrarleyfis, samkvæmt 6. gr. a og 6. gr. b, er ekki uppfyllt. Til frekari skýringar á þeim tilvikum sem frumvarpið nær til má nefna dæmi: Fjörður A hefur 10.000 tonna áhættu- og burðarþolsmat og þar hafa verið gefin út tvö 4.000 tonna rekstrarleyfi hvort til síns fyrirtækisins, eða alls 8.000 tonn í firðinum, og engin gild umsókn um rekstrarleyfi er til meðferðar. Umhverfismat ofangreindra leyfa miðast við 8.000 tonn og því ekki rými til hækkunar samkvæmt fiskeldislögum. Í þessu tilviki liggur fyrir að það eru 2.000 tonn laus í firðinum sem eru „ónýtt“ og ekki hægt að bjóða út samkvæmt gildandi lögum enda nær heimild í 2. mgr. 4. gr. a fiskeldislaga einungis til úthlutunar á eldissvæðum.

Með frumvarpinu er lagt til að heimilt verði, í samræmi við þá stefnumörkun sem fólst í lögum nr. 101/2019, að ráðstafa rétti til að hagnýta slíkan vannýttan lífmassa í fiskeldi að undangengnu útboði. Rétt er að árétta að í frumvarpinu er sérstök skylda til að setja lágmarksverð vegna slíkra útboða. Gert er ráð fyrir að við ákvörðun slíks lágmarksverðs verði litið til þeirra þátta sem ætla má að þeir aðilar sem taki þátt í útboðinu byggi ákvörðun sína um tilboð á og lúta að rekstrarforsendum í hverju og einu tilviki. Mat á mögulegu lágmarksverði við útboð sem þetta er á margan hátt erfitt og flókið en við þá ákvörðun mun að sjálfsögðu verða stuðst við mat sérfræðinga um mögulegt verðgildi í hverju og einu tilviki. Má þó líta til reynslu í nágrannalöndum af útboðum af þessu tagi. Þá er rétt að benda á þau tilvik sem frumvarpinu er ætlað að ná til og varða svæði þar sem þegar eru til staðar rekstrarleyfi sem eru á hendi fárra fyrirtækja og að þátttaka í útboði mun takmarkast við þann fjölda.

Verði frumvarpið óbreytt að lögum getur það leitt til tekjuaukningar fyrir ríkissjóð, bæði vegna almennra fyrirmæla laga um töku gjalds vegna fiskeldis í sjó og fiskeldissjóð, nr. 89/2019, og vegna greiðslu samkvæmt útboði.

Virðulegi forseti. Ég vil að öðru leyti vísa til þeirra athugasemda sem fylgja frumvarpinu en þar er ítarlega fjallað um og gerð grein fyrir efni þess.

Að lokinni þessari umræðu legg ég til að frumvarpinu verði vísað til 2. umr. og hv. atvinnuveganefndar.