151. löggjafarþing — 18. fundur,  12. nóv. 2020.

aðgengi einstaklinga sem ferðast til Íslands að þungunarrofi.

239. mál
[14:54]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég ætla ekki að banna hv. þingmanni að nota nein orð svo lengi sem þau eru íslensk. Ef ég sæti í forsetastól myndi ég vara hv. þingmann við ef hann færi að nota erlend orð. En það sem ég var að benda á er að lögin heita núna lög um þungunarrof. Þau hétu áður einhverju löngu og miklu nafni, þar sem finna mátti orðin „kynfræðsla“ og „leiðbeiningar“ og annað og orðið fóstureyðing var þar líka. Það er sérstaklega fjallað um þetta í greinargerð með frumvarpi til laga um þungunarrof, af hverju verið er að breyta orðræðunni með þessum hætti í lagatexta og það er ástæða fyrir því. Það er líka ástæða ef maður horfir á beinar þýðingar, bæði á skandinavísk tungumál og líka ensku. Það var það sem ég var að benda á.

Ég held að við getum svolítið lesið afstöðu fólks út frá því orði sem það notar hér í þessum ræðustól, þegar verið er að ræða um þessa tilteknu aðgerð. Það var eingöngu það sem ég var að benda á. En hv. þingmanni er fullkomlega heimilt að nota það orð sem honum hentar, eins og honum er heimilt að hafa sína afstöðu til málsins í heild sinni.

Er þessi þingsályktunartillaga algjörlega óþörf? Klárlega ekki því að við höfum eytt nokkrum dögum í að ræða hana og það er bara gott og áhugavert að skiptast á skoðunum um það, sérstaklega þegar skoðanaskiptin geta verið á málefnalegum grunni. Ég spyr mig einfaldlega þeirrar spurningar hvort konu frá Póllandi yrði neitað um slíka aðstoð í dag. Þingsályktunartillagan gengur út á það að koma í veg fyrir að slíkum hömlum verði beitt. Ég geri ráð fyrir því að farið verði sérstaklega yfir það í hv. velferðarnefnd, þegar þessi þingsályktunartillaga kemur til umræðu, hvort þetta sé heimilt í dag eða ekki.