151. löggjafarþing — 21. fundur,  17. nóv. 2020.

Schengen-upplýsingarkerfið á Íslandi.

266. mál
[15:26]
Horfa

dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um Schengen-upplýsingakerfið á Íslandi. Frumvarp þetta er samið til innleiðingar á þremur gerðum Evrópusambandsins vegna aðildarsamnings Íslands að Schengen-samstarfinu. Gerðirnar fela í sér nokkuð umfangsmiklar breytingar á reglum um upplýsingakerfið og var því ákveðið að setja ný lög um Schengen-upplýsingakerfið hér á landi. Gildandi lög eru frá árinu 2000 með síðari breytingum.

Gerðirnar leggja til breytingar á upplýsingakerfinu sem ætlað er að efla samvinnu lögreglu og dómsyfirvalda aðildarríkjanna í sakamálum, efla notkun upplýsingakerfisins á landamærum við landamæraeftirlit og styrkja stefnu Evrópusambandsins um endursendingu ríkisborgara þriðju ríkja sem dvelja ólöglega á Schengen-svæðinu. Innleiðingin er liður í alþjóðlegum skuldbindingum Íslands sem þátttakanda í Schengen-samstarfinu. Svigrúmið til innleiðingar er því afar takmarkað.

Frumvarpið er mun ítarlegra um einstaka þætti upplýsingakerfisins, notkun þess og vinnslu upplýsinga í því, en gildandi lög. Mælt er fyrir um auknar heimildir til skráningar á nýjum tegundum upplýsinga í kerfið. Heimilt verður að miðla fleiri upplýsingum og lögð er áhersla á gæði þeirra með það að markmiði að auka skilvirkni kerfisins og tryggja áreiðanlegri upplýsingar fyrir yfirvöld sem hafa aðgang að því.

Reglur um persónuvernd eru styrktar þar sem grunnviðmið um skráningu er sett ásamt því að kveðið er skýrt á um meðferð, varðveislu og eyðingu persónuupplýsinga úr kerfinu. Einnig er kveðið á um sérreglur um skráningu og notkun lífkennaupplýsinga. Með nýjum skráningum, sem mælt er fyrir um í frumvarpi þessu, verður í ákveðnum afmörkuðum tilvikum heimilt að skrá viðkvæma einstaklinga í kerfið sem þarf að koma í veg fyrir að ferðist, sem sagt börn sem eiga það á hættu að vera tekin með ólögmætum hætti úr landi af foreldri, verða fórnarlömb mansals eða aðilar að vopnuðum átökum, en samkvæmt gildandi lögum er einungis heimilt að skrá einstaklinga sem hafa horfið. Þessum skráningum er því ætlað að vera fyrirbyggjandi.

Einnig verður heimilt að skrá upplýsingar um einstaklinga í þeim tilvikum að lögregla hafi af þeim bein afskipti, þegar skýr vísbending er um að viðkomandi fremji eða muni fremja hryðjuverk eða alvarlegt afbrot og afla þarf ákveðinna upplýsinga um viðkomandi. Heimilt er þá að skrá viðkomandi í upplýsingakerfið í þeim tilgangi að hafi annað ríki afskipti af honum fái skráningarríkið upplýsingar um það, t.d. um tímasetningu og stað afskiptanna eða möguleg eftirtektarverð tengsl hans við brotastarfsemi. Með þessum skráningum er ekki verið að auka við heimildir lögreglu til afskipta af borgurum heldur getur lögregla einungis beitt gildandi lagaheimildum í þessu skyni, lögreglulögum og sakamálalögum, rétt eins og samkvæmt núgildandi lögum um Schengen-upplýsingakerfið sem heimila að einstaklingur verði skráður í kerfið vegna eftirlits með leynd, leitar eða líkamsrannsóknar.

Þá verður heimilt í ákveðnum afmörkuðum tilvikum að skrá einungis fingrafaragögn óþekktra einstaklinga í upplýsingakerfið sem finnast á vettvangi hryðjuverka eða annars alvarlegs afbrots í þeim tilgangi að lýsa eftir eða bera kennsl á viðkomandi og er það nýr flokkur skráninga. Þá er kveðið á um hvernig greina eigi á milli tveggja einstaklinga í upplýsingakerfinu með svipaða auðkennislýsingu og fjallað um viðbótargögn til að takast á við misnotkun auðkenna.

Þar að auki er lagt til með frumvarpinu að heimilt verði að skrá fleiri upplýsingar um einstaklinga og hluti í upplýsingakerfið og kveðið er á um með nákvæmum hætti hvaða hluti megi skrá og tengja skráningu einstaklinga. Auknar heimildir til skráningar upplýsinga fela m.a. í sér að heimilt verður að skrá hvort viðkomandi hafi tengsl við hryðjuverk eða hryðjuverkasamtök og þá verður heimilt að skrá hluti tengda upplýsingatækni og íhluti vélknúinna ökutækja og/eða búnaðar til iðnaðar sem hægt er að bera kennsl á. En eitt af markmiðum með nýjum skráningum í upplýsingakerfið er að gera Schengen-upplýsingakerfið að aðalverkfæri yfirvalda til að berjast gegn hryðjuverkum og annarri brotastarfsemi.

Frumvarpið kveður ekki einungis á um heimild til skráningar heldur einnig um skyldu til skráningar í ákveðnum tilvikum með einhverjum undanþágum þó. Má þá helst nefna skyldu til að skrá ríkisborgara þriðju ríkja sem eru í ólögmætri dvöl á Schengen-svæðinu og hafa sætt ákvörðun um brottvísun eða frávísun. Um er að ræða nýjung en hingað til hefur verið valkvætt fyrir ríki að skrá slíkar upplýsingar í kerfið. Skyldan er til þess fallin að auka yfirsýn, skilvirkni og samkvæmni meðal Schengen-ríkjanna um framkvæmd slíkra ákvarðana og er liður í aðgerðum til að auka öryggi á Schengen-svæðinu. Skráningum sem þessum verður eytt úr kerfinu þegar viðkomandi hefur yfirgefið Schengen-svæðið og ákvörðun þannig framfylgt. Áfram verður skylt að skrá endurkomubann ríkisborgara þriðju ríkja inni á svæði þegar það á við, þ.e. þegar viðkomandi skal synjað um komu og dvöl.

Með auknum skráningum í upplýsingakerfið eykst starfsemi þess til muna. Skráningum mun fjölga og þar með verkefnum notenda. Lögð er áhersla á að þau yfirvöld sem hafa beinlínuaðgang að kerfinu fullnýti það við þau verkefni sem þeim er heimilt. Sú ábyrgð er einnig lögð á yfirvöld að tryggja að upplýsingar sem skráðar eru í kerfið séu áreiðanlegar, skráðar og uppfærðar með lögmætum hætti. Lagt er til að auk þeirra sem hafa beinlínuaðgang að kerfinu, samkvæmt núgildandi lögum, fái Landhelgisgæsla Íslands, héraðssaksóknari og utanríkisráðuneytið aðgang að kerfinu fyrir ákveðin afmörkuð verkefni. Allt er þetta liður í að auka öryggi á Schengen-svæðinu, þar á meðal almannaöryggi og allsherjarreglu, en kerfið treystir eftirlit á ytri landamærum svæðisins og greiðir fyrir samvinnu lögregluyfirvalda ríkjanna til að koma í veg fyrir og uppræta brotastarfsemi.

Schengen-upplýsingakerfið er mikilvægt verkefni í samvinnu íslenskra og evrópskra lögregluliða. Með starfrækslu þessa rafræna gagnasafns er upplýsingum miðlað á skilvirkan og öruggan hátt milli ríkjanna en það er mikilvægt að unnt sé að fylgja greiðlega þeim reglum sem gilda um frjálsa för fólks á Schengen-svæðinu.

Breyttar reglur um Schengen-upplýsingakerfið ber einnig að skoða með hliðsjón af væntanlegum breytingum í tæknimálum og upplýsingakerfum á vettvangi samstarfsins þar sem stefnt er að því að taka í notkun tvö ný kerfi árið 2022, annars vegar kerfi um komu og brottfarir, EES, sem verður sett upp á öllum ytri landamærum svæðisins og hins vegar kerfi um ferðaheimild, ETS, sem í grunninn felur í sér að ríkisborgarar þriðju ríkja, sem eru undanþegnir áritunarskyldu, þurfa að sækja um ferðaheimild áður en þeir ferðast inn á Schengen-svæðið.

Ný reglugerð um upplýsingakerfi fyrir vegabréfsáritanir er einnig í mótun á vettvangi Schengen-samstarfsins en öll þessi upplýsingakerfi, ásamt Schengen-upplýsingakerfinu, hafa það að meginmarkmiði að auka öryggi á svæðinu. Breytingar á Schengen-upplýsingakerfinu, sem mælt er fyrir í þessu frumvarpi, eru einn mikilvægasti þátturinn í því.

Frumvarpið sætti opinberri umsögn á samráðsgátt stjórnvalda í febrúar sl. en við gerð frumvarpsins leitaði ráðuneytið sérstaklega eftir umsögn embættis ríkislögreglustjóra, Útlendingastofnunar og Persónuverndar og við áframhaldandi vinnu við frumvarpið var leitast við að taka fullt tillit til allra athugasemda sem bárust við frumvarpið.

Að lokum ber að nefna að stefnt er á að frumvarp til laga um breytingu á lögum um útlendinga og lögum um atvinnuréttindi útlendinga, sem var lagt fram á 149. og 150. löggjafarþingi, verði aftur lagt fram með viðbótum en í því eru lagðar til breytingar á ákvæðum um brottvísanir sem mikilvægt er að gangi í gegn svo að skráningar upplýsinga vegna brottvísana í Schengen-upplýsingakerfið verði eins og mælt er fyrir í frumvarpi þessu.

Hæstv. forseti. Ég hef nú gert grein fyrir helstu efnisatriðum frumvarpsins og legg til að því verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. allsherjar- og menntamálanefndar og 2. umr.