151. löggjafarþing — 22. fundur,  18. nóv. 2020.

tafir á aðgerðum og biðlistar.

117. mál
[17:08]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég held að þetta sé góð umræða hér. Mér er persónulega alveg sama hvort þjónusta er veitt hjá opinberum aðilum eða sjálfstætt starfandi. Grunnurinn okkar þegar kemur að heilbrigðiskerfinu á í fyrsta lagi auðvitað alltaf að snúast um heilsu einstaklinganna, sjúklinganna, og í öðru lagi gæði þeirrar þjónustu sem við bjóðum upp á og í þriðja lagi um hagkvæmnina. Ég tel að við náum því best fram með blönduðu kerfi. Við erum að sjálfsögðu með blandað kerfi og blandað kerfi er í rauninni í öllum löndum sem við berum okkur saman við.

Virðulegur forseti. Ég vil bara ítreka það að í hvert skipti sem við tölum um heilbrigðiskerfið okkar og heilbrigðisþjónustuna okkar á útgangspunkturinn alltaf að vera gæði þjónustunnar fyrir einstaklinginn. Ef einkaaðilar geta komið og aðstoðað (Forseti hringir.) okkur við að veita þjónustuna hraðar og betur, með hagkvæmum hætti, (Forseti hringir.) þá eigum við að sjálfsögðu að horfa til þess.