151. löggjafarþing — 23. fundur,  19. nóv. 2020.

flokkun lands í dreifbýli í skipulagi.

[13:08]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Umræðan snýst hérna, þegar allt kemur til alls, um ákveðið matvælaöryggi. Rosalega mikið af landnotkun er vegna landbúnaðar, vegna húsdýra, vegna matvælaframleiðslu og líka vegna námugraftar. Víðast hvar í heiminum þar sem er skógareyðing fer helmingur af þeirri eyðingu í annaðhvort ræktarland eða námugröft, sem er mjög áhugavert. Við erum kannski ekki með alveg sömu vandamálin hérna en þó samt.

Á næstu árum og áratugum, því fyrr því betra, verða ákveðnar tækniframfarir eða möguleikar á ákveðnum tækniframförum sem gera skipulagningu og notkun lands auðveldari, sérstaklega fyrir þau atriði hvað matvælaöryggi varðar. Ég vil leggja áherslu á þetta: Markmiðið er að við, mannkynið, látum náttúruna vera eins mikið og við getum. Við nýtum hana ekki að óþörfu. Við erum komin á þann stað í heiminum að villt, ósnortið land er orðið svo til óþekkt, miðað við fyrri áratugi.

Á næstunni komum við til með að sjá ákveðna orkubyltingu sem gerir staðbundna orkuframleiðslu miklu auðveldari og þá þarf ekki að taka gríðarlegt landrými undir virkjanir og þess háttar. Það verður gríðarlega mikil sjálfvirknivæðing, það verður tækni eins og kjötrækt, sem virkar líka fyrir plöntur og plöntufrumur. Þar verðum við að gefa dálítið í því að loftslagsvandinn og matvælaöryggi okkar liggur einfaldlega undir miðað við þann fjölda mannfólks í heiminum sem við sjáum fram á á næstu áratugum.