151. löggjafarþing — 24. fundur,  24. nóv. 2020.

húsakostur Landakots og sóttvarnaaðgerðir.

[14:17]
Horfa

Sara Elísa Þórðardóttir (P):

Forseti. Ég þakka ráðherra svörin. Ég vil byrja á því að segja að með heppni á ég við að á meðan húsakosturinn er eins og raun ber vitni þarf ákveðna heppni til þar til eitthvað gefur sig. Og það er það sem gerðist. Það var ekki loftræsting á Landakoti og það var ekki hægt að hólfa niður eins og þurfti. Það er það sem ég átti við.

Forseti. Nú heyrðum við í fyrradag af 4,3 milljarða hallarekstri Landspítala. Slíkur hallarekstur kemur eins og blaut tuska í andlitið á stjórnendum spítalans sem og þjóðinni allri, sem þurft hefur að þola ýmislegt síðustu níu mánuði vegna ógnvekjandi heimsfaraldurs, Covid-19. Hafa síðustu mánuðir sýnt fram á gríðarlegt mikilvægi heilbrigðiskerfisins fyrir þjóðina. Það sætir því undrun að stjórnvöld skuli gera stórkostlega aðhaldskröfu á þungamiðju heilbrigðiskerfisins sjálfs, Landspítalann.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra: Af hverju er burðarstólpi heilbrigðiskerfisins, þar sem starfsfólk hefur þurft að starfa undir ómanneskjulegu álagi undanfarin ár, síðan vanfjármagnaður sem nemur mörgum milljörðum? Hvers vegna fær Alþingi ekki útskýringar (Forseti hringir.) á orsökum hallans miðað við það fjárlagafrumvarp sem þingið er að vinna (Forseti hringir.) og fjárheimildir til Landspítalans? Hvers vegna vill ráðherra skerða þjónustugetu aðalsjúkrahúss landsins?