151. löggjafarþing — 26. fundur,  26. nóv. 2020.

kostnaður vegna losunarheimilda.

[10:34]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að vekja athygli á þessu máli sem ég lít raunar á sem tvíþætt. Í fyrsta lagi er það sú staða að væntanlega munum við Íslendingar þurfa að greiða einhvern reikning fyrir að hafa farið fram úr losunarheimildum undanfarinna ára. Sú fjárhæð liggur ekki fyrir, eins og hv. þingmaður bendir réttilega á. Um leið og hún liggur fyrir verður það lagt fram í ríkisstjórn og að sjálfsögðu á Alþingi og við munum gera þann reikning upp eins og okkur ber samkvæmt þeim skuldbindingum sem við höfum gengist undir.

Hins vegar er það svo, sem mér fannst hv. þingmaður gefa hér til kynna, að í raun og veru allt frá því að við gengumst undir skuldbindingar Kyoto-bókunarinnar þá höfum við tekið á okkur enn meiri skuldbindingar hvað varðar samdrátt í losun. Hv. þingmaður leiddi þáverandi ríkisstjórn til þess að vera þátttakandi í Parísarsáttmálanum og ég var mjög ánægð með það skref hjá þáverandi ríkisstjórn, að gera nákvæmlega það, sem þýðir að þótt við þurfum að gera upp þessa losunarkvóta, sem við munum að sjálfsögðu gera með eins hagkvæmum hætti fyrir íslenska ríkið og mögulegt er og það mun þá væntanlega skýrast á allra næstu dögum eða vikum, þá breytir það því ekki að við höfum undirgengist skuldbindingar um að draga úr losun og þær eru ekki úr lausu lofti gripnar. Ég þykist vita að við hv. þingmaður séum sammála um að við eigum að sýna metnað í því. Það mun verða í raun og veru sóknarfæri fyrir íslenskt samfélag að ganga í gegnum græna umbreytingu með því að draga úr losun og auka bindingu. Það er það sem við sjáum þjóðir heims almennt vera að gera. Þær eru að greina tækifærin sem felast í því fyrir atvinnulífið, fyrir sjávarútveginn, fyrir landbúnaðinn, fyrir iðnaðinn, að fara nákvæmlega þessa leið, að draga úr losun, vinna framleiðslu sína með eins umhverfisvænum hætti og unnt er, vegna þess að við viljum gera það sem við höfum sagst ætla að gera, (Forseti hringir.) vegna þess að við viljum leggja okkar af mörkum og vegna þess að Ísland getur einmitt lagt sitt af mörkum í þessari mikilvægu baráttu.