151. löggjafarþing — 26. fundur,  26. nóv. 2020.

aðstoð við atvinnulífið og hina tekjulægstu.

[10:49]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Það er alltaf hættuspil hjá hv. þingmönnum þegar þeir segja að dæmin sýni eitthvað tiltekið en fara svo ekki rétt með. Við skulum bara fara yfir dæmin um það sem þessi ríkisstjórn hefur gert til að auka jöfnuð hér á landi og bæta lífskjör. Hér var samþykkt réttlátara skattkerfi, þrepaskipt skattkerfi, sem skilaði skattalækkun til þeirra tekjulægstu. Er það að mylja undir hina ríku? Ég held ekki. Já, við hækkuðum atvinnuleysisbætur. Með þeim breytingum sem verða um áramótin hafa þær raunar verið hækkaðar um 35% á þessu kjörtímabili, töluvert minna en fjárhagsaðstoð sveitarfélaga hefur hækkað á þessu sama kjörtímabili sem nú er til umræðu. Hv. þingmaður ætti kannski að velta því fyrir sér og ræða við sína sveitarstjórnarmenn. Já, við höfum lengt fæðingarorlof. Er það að mylja undir hina ríku eða er það til að tryggja betur lífsgæði ungs fólks sem gögn sýna að hefur einmitt setið eftir þegar við skoðum áratug aftur í tímann? Við innleiddum hér nýtt kerfi hlutdeildarlána til að styðja við þá sem eiga að þurfa að kaupa nýtt húsnæði og hafa átt erfitt með það á undanförnum árum. Er það að mylja undir þá ríku, hv. þingmaður? Er það dæmi sem sýnir það? Er sú ráðstöfun sem ákveðið hefur verið að ráðast í, að endurskoða kerfi almannatrygginga þannig að fjárhæðir sem renna í bætur til þeirra sem minnst hafa í þeim hópi hækki hlutfallslega meira en hinna? Ég spyr hv. þingmann um þessi dæmi. Er það að hækka fjármagnstekjuskattinn upp í 22%, en vissulega endurskoða tekjustofn eins og kveðið er á um í stjórnarsáttmála, endilega dæmi um það að mylja undir hina ríku? Hv. þingmaður verður að velta því fyrir sér þegar hún segir að dæmin sanni eitthvað og það að vísa í hagfræðing Kviku banka, sem var í sínu máli að ræða um það fjármagn sem er inni í bönkunum og gefa til kynna að ríkisstjórnin hefði ákveðið að deila út fjármagni, ber nú hreinlega vott um þekkingarleysi.