151. löggjafarþing — 26. fundur,  26. nóv. 2020.

aðstoð við atvinnulífið og hina tekjulægstu.

[10:53]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég veit ekki hvort ég á að skilja orð hv. þingmanns þannig að hún sé á móti þrepaskiptu skattkerfi. Það mátti skilja það af orðum hennar og mér finnst það áhugavert ef svo er. Þær þjóðir sem við berum okkur saman við, þar sem jöfnuður er mestur og velsældin mest, eru einmitt þær þjóðir sem hafa þrepaskipt skattkerfi. Mér finnst því áhugavert, þegar hv. þingmaður kemur hér upp og ræðir um hvað ríkisstjórnin hefur gert, að hún hafi þessa afstöðu. Ég bara tek það með mér út úr þessum fyrirspurnatíma.

Ég vil líka nefna það, af því að hv. þingmaður ræðir um aðgerðir ríkisstjórnarinnar vegna heimsfaraldurs, að stærsta einstaka aðgerðin hefur einmitt snúist um að tryggja að fólk geti viðhaldið ráðningarsambandi og verið áfram í hlutastörfum. Það er best nýtta úrræði ríkisstjórnarinnar þegar við horfum á það sem gert hefur verið. Um 20 milljarðar hafa runnið til þess og það munum við framlengja fram á sumar. Ég veit að vafalaust finnst einhverjum hv. þingmönnum hér inni ekki mikilvægt að tryggja að fólk geti verið áfram í vinnu og finnst það að sigrast á (Forseti hringir.) atvinnuleysinu ekki vera stærsta viðfangsefni stjórnvalda á hverjum tíma. En það er mín afstaða (Forseti hringir.) að atvinnuleysi sé það mesta langtímaböl sem þetta land geti átt við að eiga (Forseti hringir.) og það sé einmitt mikilvægt að vinna á því.