151. löggjafarþing — 26. fundur,  26. nóv. 2020.

viðspyrnustyrkir.

334. mál
[14:49]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Þetta er enn eitt af þessum málum sem hefur þótt nauðsyn að grípa til vegna kófsins en eins og segir í greinargerð frumvarpsins samþykkti ríkisstjórnin í mars að beita sér fyrir markvissum aðgerðum til að mæta efnahagslegum áhrifum faraldursins. Markmið frumvarpsins, eins og þau koma fram í 2. gr., eru, með leyfi forseta:

„Markmið laga þessara er að stuðla að því að rekstraraðilar sem hafa orðið fyrir tekjufalli vegna heimsfaraldurs kórónuveiru og aðgerða stjórnvalda til að verjast útbreiðslu hennar geti viðhaldið nauðsynlegri lágmarksstarfsemi á meðan áhrifa faraldursins gætir, varðveitt viðskiptasambönd og tryggt viðbúnað þegar úr rætist.“

Ég ætla svo sem ekkert að mæla neitt sérstaklega gegn þessum markmiðum sem slíkum en það sem mig langar hins vegar að vekja athygli á er notkunin á markvissum aðgerðum. Hér er einmitt talað um rekstraraðila sem hafa orðið fyrir tekjufalli. Síðan er skilgreint að miðað skuli við þessi 60% sem var talað um hér en ekki þá sem eru með 50%, 55% eða eitthvað því um líkt, þó að það sé líka tekjufall. Það leiðir hugann að þessum markmiðum og hvernig aðstæður væru ef ekki væri farið í viðspyrnustyrkina. Þetta er atriði sem ég hef kvartað ítrekað undan í sambandi við öll opinber fjármál, ekki bara í kringum faraldurinn, þessi skortur á greiningum og ástæðum sem við hér í þinginu fáum fyrir því að ein lausn er valin umfram aðra.

Við erum í þeim aðstæðum að hér hafa verið prentaðir um 300 milljarðar kr. Sagt er að um 200 milljarðar þeirra hafi farið í fasteignir þegar allt kemur til alls. Það er ekki beint skilvirk notkun á því peningaprentunarsvigrúmi sem ríkissjóður hafði fyrir efnahagsáhrif Covid. Þar kemur til ákveðinn skortur á greiningu á áhrifum þeirra aðgerða sem við höfum verið að leggja til. Ríkisstjórnin kemur með einhverjar tillögur um hvernig eigi að bregðast við. En hvert fara peningarnir og hvaða áhrif hafa þeir varðandi einmitt þau markmið sem tilgreind eru? Hvernig verður sviðsmyndin, t.d. í gjaldþrotum, án viðspyrnustyrkjanna? Hvaða áhrif hefur það á samfélagið og ríkissjóð? Og hver væri munurinn, hvernig væri staðan ef við samþykkjum þá viðspyrnustyrki sem eru listaðir upp hérna? Samkvæmt Hagstofunni uppfylla um 2.415 aðilar skilyrði um a.m.k. 60% tekjufall á árinu. 2.415, allt í lagi. Hvaða áhrif myndi það hafa á þessi fyrirtæki, þessa einstaklinga og aðila, ef ekki væri farið út í viðspyrnustyrkina? Og hvernig er ætlast til að þeir aðilar komi hinum megin út úr þessum styrkjum? Hver verður niðurstaðan að lokum? Verða það 10% sem falla útbyrðis þrátt fyrir viðspyrnustyrkina? Verður það enginn? Myndu 100% af þeim sem þetta á við um ekki komast í gegnum kófið ef ekki væri fyrir viðspyrnustyrkina? Það eru svona greiningar sem alltaf vantar til að við getum tekið ákvörðun um hvort þetta sé góð meðferð á almannafé. Ef niðurstaðan er að þrátt fyrir viðspyrnustyrkina komist enginn í gegnum kófið er líklega betra að nota peninginn einhvern veginn öðruvísi. En það vantar einmitt þá greiningu. Ég býst fastlega við að þetta hafi þó nokkuð jákvæð áhrif en ég bara get ekki sagt hver og ég get ekki svarað fólki sem er að hlusta og spyr: Er verið að fara vel með almannafé? Ég get ekki sagt já eða nei, ég get sagt líklega, en mér finnst ekkert rosalega gaman að svara þannig.

Þessar aðgerðir segja okkur enga heildstæða sögu um samverkandi áhrif allra aðgerða ríkisstjórnarinnar. Þær taka við af öðrum leiðum. Þetta eru viðspyrnustyrkir, hitt voru tekjufallsstyrkir. Það eru líka ýmsir styrkir varðandi skattgreiðslur og það er hlutabótaleið og það er greitt með uppsagnarfresti. Eru t.d. sömu aðilar að fá styrki úr mörgum áttum? Það er ekkert um slík samverkandi áhrif sem gerir okkur á þingi rosalega erfitt að hafa eftirlit með því hvernig farið er með opinbert fé, sem er líka slæmt. Er stuðningurinn tvítekinn í gegnum einhverja leið, kannski annars vegar í gegnum skattaleiðina og hins vegar með þeim styrkjum sem hér um ræðir? Margt af þessu er einmitt endurtekið vandamál í opinberum fjármálum sem við höfum reynt að vinna eftir á undanförnum árum. Ríkisstjórnin, fyrri ríkisstjórn o.s.frv., skilaði ekki nægilega góðri greiningarvinnu til þingsins sem á að fara með fjárveitingavaldið, á að fara með eftirlitsvaldið. Við höfum þetta stórundarlega fyrirkomulag hér þar sem á að vera aðgreining valds, löggjafarvalds og fjárveitingavalds. Eftirlit með framkvæmdarvaldinu fer fram á þingi en framkvæmdarvaldið sem slíkt á að vera aðskilið. En við erum að sjálfsögðu með flokka sem nýta sér meiri hluta á Alþingi til að skipa framkvæmdarvald sem skilar síðan svona vinnu til þingsins, nokkurn veginn með því hugarfari að slík mál renni í gegn án þess að hægt sé að taka á þeim varðandi eftirlitshlutann sem þingið ætta að sinna undir öllum eðlilegum kringumstæðum.

Þarna stendur hnífurinn oft í kúnni, í slíkri beitingu á valdi og ákveðinni vanvirðingu gagnvart þeirri ábyrgð sem Alþingi á að taka. Við sjáum það í orðum hæstv. fjármálaráðherra sem segir að Alþingi hafi samþykkt þetta eins og það var áður, með 40%, í fyrri úrræðum ríkisstjórnarinnar. En það endurspeglar ekkert endilega vinnu Alþingis heldur einfaldlega þann meirihlutakúltúr sem er í þessu húsi og hvernig það vald er notað á mjög ómálefnalegan hátt. Að mínu mati er það uppspretta allra okkar vandamála hvernig meirihlutavaldinu er beitt og núna til að koma í gegn ákveðnum viðspyrnustyrkjum án þess að tilhlýðilegur rökstuðningur fylgi. Af hverju eru það ekki 55%? Af hverju eru það 60%? Af hverju fá þessi fyrirtæki viðspyrnustyrk en ekki önnur? Af hverju er ekki sagt frá því hverjar aðstæðurnar væru án styrkjanna á móti því hvernig þær eru með styrkjunum. Fólk sem stendur fyrir utan og er að borga sína skatta klórar sér í hausnum og spyr: Er þetta að redda húsinu mínu, afkomu minni og vinnu minni? Kannski, en það er ekkert útskýrt hvað það varðar. Og þar stendur alltaf hnífurinn í kúnni, í sambandi við öll þessi mál ríkisstjórnarinnar. Þetta er bútasaumur með misstórum bótum og það þarf einhvern veginn að sauma þær saman en við fáum ekki einu sinni nálina til að reyna það og við vitum ekkert um litinn eða mynstrið eða stærðina eða neitt. Við fáum þetta bara á einu bretti án þess að geta púslað því saman hvernig þetta passar saman við allt annað. Það er dálítið þreytandi, ég verð að segja það.

Ég hef áhuga á því að hv. fjárlaganefnd fari nú t.d. að reyna að sinna því að farið sé eftir lögum um opinber fjármál. Það hefur áhrif á þetta lagafrumvarp sem fer í hv. efnahags- og viðskiptanefnd. Rökstuðningurinn sem á að fylgja þeim lögum sem hafa áhrif á ríkissjóð er að finna í lögum um opinber fjármál. Þó svo að þar sé aðallega talað um fjárlög, fjáraukalög, fjármálaáætlun, fjármálastefnu og þess háttar þá eru þar almenn ákvæði um mat á áhrifum lagasetningar, kostnaðarmat. Og þó að hér sé nefnd upphæð, einhverjir tæpir 20 milljarðar í mesta lagi ef þetta fer allt eftir bókinni miðað við svartsýnustu spár er okkur sagt hérna, segir það okkur samt ekkert um áhrifin. Það segir okkur bara hvað þetta kostar. Það segir okkur ekki hvaða ávinning við höfum af því að nota opinbert fé, almannafé, á þennan hátt.