151. löggjafarþing — 26. fundur,  26. nóv. 2020.

fjáraukalög 2020.

337. mál
[15:58]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Síðan þessi djúpa kreppa hófst hef ég verið að gagnrýna ráðherra fyrir að gera of lítið; of litlar fjárfestingar, of lítil raunveruleg innspýting, of lágar bætur, of fá störf. Ég er ekki einn um þessa gagnrýni. Sérfræðingar hafa verið að taka í sama streng. Alltaf er ráðherra samt tilbúinn að svara mér með sama hætti, að hann sé eiginlega búinn að gera nóg, að það sé óábyrgt að gera meira, að bæturnar séu nógu háar, fjölgun hjúkrunarfræðinga sé vitlaus hugmynd o.s.frv. Gott og vel. Þarna kristallast munurinn á okkur sem stjórnmálamönnum. En síðan koma fimm fjáraukar og fjárlög sem bæta aðeins í, ekki mikið en samt er bætt í. Atvinnuleysisbætur eru aðeins hækkaðar, aðeins bætt í skólana, sjúkrahúsin, listamannalaunin og opinberum störfum er aðeins að fjölga, ekki nægilega mikið en eitthvað.

Hæstv. ráðherra segir iðulega að okkar hugmyndir séu óábyrgar og vitlausar en síðan framkvæmir hann þær með hálfum hug og af hálfum krafti og kannski eftir einhvern þrýsting. Hvernig fer þetta saman, herra forseti? Hæstv. ráðherra skammar okkur iðulega, okkur sem viljum bæta í, sem hann síðan gerir. Hvar er hæstv. ráðherra eiginlega í pólitík? Það er stóra grundvallarspurningin sem mig langar að hann svari.