151. löggjafarþing — 26. fundur,  26. nóv. 2020.

minningardagur um fórnarlömb helfararinnar.

110. mál
[19:19]
Horfa

Flm. (Rósa Björk Brynjólfsdóttir) (U):

Frú forseti. Það er dapur veruleiki að hatursglæpum sem tengjast trúarlegum ástæðum hefur farið fjölgandi á undanförnum árum. Trúarlegum glæpum hefur fjölgað í Evrópu 70 árum eftir seinni heimsstyrjöldina. Það höfum við til að mynda séð bara núna í september þegar þrjár mannskæðar árásir voru gerðar í Frakklandi þar sem fjórar manneskjur voru vegnar af trúarlegum ásetningi og þann 13. nóvember voru fimm ár liðin frá því að 130 manneskjur voru drepnar af trúarlegum ástæðum í hræðilegri árás á skemmtistaðinn Bataclan og fleiri staði í París þar sem um var að ræða eina mannskæðustu árás sem gerð hefur verið í Frakklandi. Þetta eru bara nokkur dæmi um hræðilega glæpi sem eru framdir í nafni trúarofstækis og haturs gegn öðrum en þeim sem trúa á nákvæmlega það sama og viðkomandi. Það er kannski kjarninn í því máli sem ég flyt hér.

Frú forseti. Málið var áður flutt á 150. löggjafarþingi og er nú endurflutt. Í þingsályktunartillögunni er lagt til að 27. janúar ár hvert verði tileinkaður minningu fórnarlamba helfararinnar en þann dag árið 1945 frelsaði sovéski herinn fanga úr fangabúðum nasista í Auschwitz í Póllandi.

Öll aðildarlönd ÖSE minnast þessa dags og minnast helfararinnar um leið á einhvern hátt, öll nema Ísland. Í Danmörku, Svíþjóð, Finnlandi og Noregi er helfararinnar minnst 27. janúar ár hvert. Víða um heim er hennar minnst þennan dag með ýmsum hætti, svo sem með minningarathöfnum, sýningum um sögu helfararinnar eða með sérstakri fræðslu í skólum. Í Svíþjóð er á hverju ári sérstakt þema sem lögð er áhersla á. Til að mynda var þemað árið 2012 minning Raouls Wallenbergs, sænsks embættismanns sem bjargaði fjölda gyðinga í Ungverjalandi. Árið 2014 var í Svíþjóð lögð áhersla á minningu rómafólks sem var myrt í helförinni. Árið 2015 var frelsunar fanga úr Auschwitz sérstaklega minnst víða um Evrópu þegar 70 ár voru liðin frá þeim atburði.

Með því að tileinka þennan dag minningu fórnarlamba helfararinnar mætti fræða komandi kynslóðir hér á landi um afleiðingar hatursglæpa. Þannig yrði unnt að koma í veg fyrir fordóma og aukna tíðni slíkra glæpa milli ólíkra trúar- og þjóðfélagshópa svo að viðlíka hörmungar og gerðust í seinni heimsstyrjöldinni endurtaki sig ekki á nokkurn hátt. Slíkur minningardagur fæli í sér tækifæri til að minnast fórnarlamba helfararinnar og vinna gegn kynþáttafordómum og hatursorðræðu, byggðri á trúarlegri mismunun, í þeim tilgangi að skapa friðsamara, umburðarlyndara og betra samfélag.

Frú forseti. Ég ætla ekki að hafa þessa ræðu lengri. Á þessum tímum erum við, eins og ég gat um í upphafi ræðu minnar, að sjá ákveðna tilhneigingu víða um Evrópu, ekki bara í Frakklandi, svo sem árásir á grafhýsi bæði gyðinga og kristinna, og við sjáum þess merki að trúarlegar ofsóknir eru að láta sér kræla með mikilli fjölgun viðlíka hatursglæpa sem síðan leiða af sér morð á fólki, hvort sem það er við þá iðju sína að biðja sínar bænir eða eins og í tilviki kennarans Samuels Patys sem var hreinlega að kenna nemendum sínum um tjáningarfrelsi og var veginn á hroðalegan hátt fyrir utan skólann sinn.

Þetta eru dæmi um hversu sorglega stutt er í það að við förum að sjá þróun sem við viljum stoppa. Með því að minnast þessa dags er bæði tækifæri til þess að Ísland verði ekki eitt þeirra ÖSE-landa sem ekki minnast hans með einhverjum hætti og að fræða komandi kynslóðir og okkur sem hér erum um afleiðingar hatursglæpa og hatursáróðurs í garð þeirra sem eru annarrar trúar en okkar eigin.