151. löggjafarþing — 27. fundur,  27. nóv. 2020.

kjaramál flugvirkja Landhelgisgæslu Íslands.

351. mál
[15:52]
Horfa

dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður, það er bara mjög skýrt að flugvirkjar falla ekki undir þau lög sem gera ráð fyrir undanþágubeiðnum (Gripið fram í.) og listum og nefnd. Í lögum 94/1986 er getið um þetta, þeir falla ekki undir lög um kjarasamninga opinberra starfsmanna þar sem þessar undanþágur eru. Það er skýrt og þess vegna er ekki hægt að setja það á listann eftir á og ekki hægt að krefja núverandi stjórnvöld um að gera það. Það er augljóst að löggjafinn sá þetta ekki fyrir með lagasetningunni á sínum tíma miðað við greinargerðina sem fylgir lögunum, verkfallsrétturinn átti aldrei að hafa áhrif á öryggi og björgunarstarfsemi Landhelgisgæslunnar. En það er samt þannig í lögum að það eru ákveðnir flugvirkjar í Landhelgisgæslunni sem hafa þennan rétt, þrátt fyrir lögin, og hafa verið að nýta hann með þessum afleiðingum og það er þess vegna sem við erum að setja stopp á það.

Hafa stjórnvöld leitað til erlendra aðila? Við höfum verið í sambandi við þá aðila sem eru nálægt okkur, þar á meðal Dani. En það var ekki talið svara þeirri þörf gagnvart öryggi landsmanna (Gripið fram í.)til lengri tíma af því að það er ljóst að innleiðing (Gripið fram í.) (Forseti hringir.) á nýju þyrlunni um áramótin sem og að laga TF-EIR, sem tekur tvo tíma … (Gripið fram í.) (Forseti hringir.)

(Forseti (SJS): Þögn. Leyfið ráðherranum að svara.)

Aðstoð frá Dönum hefði ekki bjargað því.