151. löggjafarþing — 30. fundur,  2. des. 2020.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2021.

5. mál
[16:50]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Oddnýju G. Harðardóttur svarið. Mér er létt að hv. þingmaður sé ekki að leggja til meiri gjaldahækkun en þegar er í þessu nefndaráliti 1. minni hluta, sem hv. þingmaður stendur einn að, er það ekki rétt skilið? En er ekki einhver misskilningur hér í gangi? Ég held að skynsamlegt sé að skoða gjöld með gagnrýnum hætti mjög reglulega. En er ekki búið að slíta tenginguna í öllum þeim gjöldum sem hv. þingmaður telur hér upp? Með lögum um opinber fjármál renna þessi gjöld öll bara í ríkissjóð. Þau hafa ekki beina tengingu við undirliggjandi útgjaldaþætti eins og áður. Mig langar til þess að spyrja — sérstaklega af því að hv. þingmaður er fyrrverandi fjármálaráðherra þá ætla ég að gefa mér að hún hafi skoðun á þessu — hvort vel hafi tekist til að mati hv. þingmanns með þessi lög um opinber fjármál þar sem þessi tenging er slitin. Ég get sagt fyrir mig að mér þykir tengingin mikilvæg. Hún ýtir undir kostnaðarvitund gagnvart undirliggjandi verkefnum í kerfinu og kostnaðarvitund almennings gagnvart gjaldtöku og skattheimtu, sem er að mínu mati allt of há heilt yfir kerfið. Í ljósi fyrrverandi stöðu hv. þingmanns sem fjármálaráðherra, hvernig telur hún að tekist hafi til með þessi nýju lög um opinber fjármál þar sem þessi tenging er slitin? Er þá textinn í nefndarálitinu í rauninni ekki byggður á ákveðnum misskilningi þar sem vísað er sérstaklega til þess, með leyfi forseta, að 1. minni hluti vari við því að gjöld, sem eiga að standa undir ákveðnum kostnaði og hækka miðað við verðbólgu, dragist saman og standi ekki undir áætluðum kostnaði?