151. löggjafarþing — 30. fundur,  2. des. 2020.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2021.

5. mál
[17:56]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég biðst afsökunar, það er langt í stólinn minn. Ég þakka hv. þm. Smára McCarthy fyrir ræðu sína. Ég byrja á öðru atriði en ég ætlaði að koma inn á hérna. Ég vil lýsa yfir sérstakri ánægju með tiltekinn hluta andsvars hv. þingmanns hér á undan við hv. þm. Oddnýju G. Harðardóttur þar sem þingmaðurinn segir: Mér finnst ekki að það eigi að stýra fólki með þessum hætti. Og var hann þá að tala um áfengisgjöldin. Þetta þótti mér er alveg sérstaklega jákvæð og virðingarverð afstaða sem ýtir undir minni forsjárhyggju en ég hef oft upplifað af orðum samflokksmanna hv. þingmanns í þingflokki Pírata. Á sama tíma ver þingmaðurinn svokallað kolefnisgjald sem hefur það eina markmið að stýra hegðun fólks. Væri hv. þingmaður til í að útskýra aðeins fyrir mér hvort einhverja línu sé að finna þarna hjá honum varðandi þessa neyslustýringu? Mér þótti þingmaðurinn koma svo ágætlega inn á það í tengslum við áfengisgjaldið og þar er ég honum sammála. En ég vildi gjarnan átta mig á hvernig hann skýrir afstöðu sína gagnvart kolefnisgjaldinu sem virðist vera mikill áhugi á að hækka.