151. löggjafarþing — 31. fundur,  3. des. 2020.

búvörulög.

376. mál
[18:38]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Mun þetta skref sem hér er verið að taka, þ.e. að færa úthlutun til fyrra horfs, einhverju breyta? Vonandi getur það styrkt stöðu íslenskrar framleiðslu. Tollamál eru önnur stoð flestra ríkja í stuðningi við innlenda framleiðslu. Þessi ósk hefur m.a. komið fram í viðræðum við fulltrúa greinarinnar þó svo að sjónarmið hafi verið ríkari, svo að það sé sagt, í þá veru að fresta útboðinu. Ég er þeirrar gerðar að horfa frekar til þess, sem ég sagði áðan, að virða samninga og að við reynum þá frekar að búa okkur til stöðu til að undirbyggja viðræður um upptöku eða endursamningu á samningi ef vilji samningsaðila stendur til þess. Ef ekki þá þurfum við að meta stöðuna í því ljósi. En ég neita að trúa því að ekki fáist viðræður á þeim forsendum sem ég hef þegar rakið. Það er verið að leggja mat á það af hálfu utanríkisráðuneytisins og atvinnuvegaráðuneytisins hvort efni sé til þess að óska eftir slíku og þeirri vinnu fer að ljúka fljótlega.

Varðandi það að skoða frekari leiðir og hvaða leiðir það gætu verið þá kann að vera að við getum unnið frekar með útboðið. Ég er að láta skoða hvort við getum komið með beinni hætti að stuðningi við t.d. kjötframleiðslu sem glímir við erfiðleika; lambakjöt og nautakjöt sérstaklega, að hluta til svín og minna í kjúklingi. Ýmsar leiðir eru því færar í þessu sem við erum að velta upp. Eins og ég gat um áðan í fyrra andsvari er ég að vonast eftir því að geta kynnt þær innan tíðar.