151. löggjafarþing — 32. fundur,  7. des. 2020.

málefni SÁÁ.

[15:20]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina og get glatt hann með því að ég hef nú þegar hitt nýja forystu SÁÁ og átt með þeim einkar ánægjulegan fund ásamt yfirlækni og fleiri starfsmönnum. Við höfum verið í nánu og vaxandi samstarfi, ekki síst vegna þess hversu mikilvægt það er að sú starfsemi sem fer fram á Vogi sé í snertingu og tengslum við aðra heilbrigðisstarfsmenn. Þar veit ég að við hv. þingmaður erum sammála, þ.e. um að heilsugæslan, sérhæfð sjúkrahúsþjónusta á Vogi og jafnframt heilbrigðisþjónusta fyrir tiltekna hópa á Landspítalanum og sjúkrahúsinu á Akureyri sé allt saman samþætt. Vaxandi framboð á göngudeildarþjónustu hefur verið mér mjög mikið áhugaefni og ég hef lagt áherslu á það. Ég skoðaði einmitt fyrr á þessu ári mjög hraða og myndarlega uppbyggingu göngudeildarþjónustu SÁÁ við Efstaleiti þar sem sú þjónusta er að ná verulegum árangri fyrir fjölbreytta hópa. Sá heilbrigðisvandi sem er undir er nefnilega mjög margslunginn og það er ekki ein tegund af þjónustu sem hentar öllum. Mér er kunnugt að fjárlaganefnd hefur verið að skoða viðbætur, bæði núna við 2. umr. fjárlaga og ekki síður varðandi fjárauka. Þannig að ég tel að það sé sameiginlegur skilningur okkar sem erum hér í þingsal að tryggja þurfi rekstrarumhverfi fyrir þá einstaklinga sem njóta þessarar þjónustu.