151. löggjafarþing — 32. fundur,  7. des. 2020.

staðfesting ríkisreiknings 2019 .

277. mál
[15:47]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Fjárlög ríkisstjórnarinnar fyrir árið 2019 einkenndust af mikilli útgjaldaaukningu og skorti á ráðdeild þrátt fyrir skýr merki um samdrátt í hagkerfinu. Aukning í ríkisútgjöldum fyrir árið 2019 var innstæðulaus. Uppgjörið í ríkisreikningi sýnir 67,4 milljarða kr. verri afkomu en miðað við fjárlög 2019. Tekjur voru ofmetnar í fjárlögum um 63,5 milljarða kr. Svo gríðarlegt ofmat á tekjum sýnir að áætlanagerð ríkisfjármála af hálfu ríkisstjórnarinnar var afleit. Ríkisreikningur fyrir árið 2019 ber þess glöggt merki að ríkisstjórnin kaus að horfa fram hjá skýrum merkjum um að hagkerfið væri í örum samdrætti. Í þessum aðstæðum bar ríkisstjórninni að sýna varfærni í ríkisfjármálum. Það gerði hún ekki. Miðflokkurinn greiðir ekki atkvæði.