151. löggjafarþing — 32. fundur,  7. des. 2020.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2021.

5. mál
[15:53]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Í þessu frumvarpi er sumt ágætt, annað miður ágætt. En við í Miðflokknum getum ekki annað en setið hjá í þessu máli þar sem kostirnir eru ekki nægilegir. Það er þá sérstaklega hækkun á kolefnisgjaldinu sem við höfum ekki í hyggju að styðja. Þetta er skattur sem Hagfræðistofnun Háskóla Íslands hefur gefið falleinkunn, skattur sem bitnar á efnalitlu fólki og hefur neikvæð áhrif á kjör þess og neyslu. Hagfræðistofnun hefur tínt fleira til sem miður fer við þessa skattlagningu, en fyrst og fremst er þessum skatti ekki jafnað niður á landsmenn með sanngjörnum hætti. Þess vegna getum við ekki stutt hann. Við styðjum hins vegar hækkun sóknargjalda sem er gott mál, en í heildina sitjum við hjá í þessu máli.