151. löggjafarþing — 32. fundur,  7. des. 2020.

samvinnufélög o.fl.

56. mál
[17:05]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég velti fyrir mér framsögu hv. þingmanns sem fór aðeins yfir umsagnir. Ég rek strax augun í það og kemur mér á óvart að ekki hafi verið leitað umsagnar Samtaka atvinnulífsins. Ég spyr hvort það sé rétt athugað hjá mér. Það kann að vera að einhver misritun á heimasíðu Alþingis en ef ég skil það rétt þá hefur ekki verið leitað umsagnar Samtaka atvinnulífsins, sem ég hefði haldið að væri nauðsynlegt í þessu máli þar sem það varðar öll fyrirtæki. Þannig að ég spyr hvort það sé rétt hjá mér og ef það hefur ekki verið gert, af hverju ekki, og hvort það sé ekki tilefni til þess að fá fram afstöðu Samtaka atvinnulífsins, en fram hefur komið í máli framsögumanns að málið verði kallað aftur til nefndar milli 2. og 3. umr. og ég fagna því sérstaklega.

Svo langar mig líka að spyrja um mat á fjárhagslegum afleiðingum þessa frumvarps. Framsögumaður hefur greinilega tölur yfir hvað það eru mörg fyrirtæki sem uppfylla þessar skyldur og þess vegna hefði ég haldið að það hefði verið létt verk. En hins vegar er nokkuð upplýsandi fyrir þingið að fá upplýsingar um það hversu háar sektargreiðslur hér gæti verið um að ræða. Hér er mælt fyrir um að dagsektir eigi að vera frá 10.000 kr. til 100.000 kr. á dag, þetta eru sem sagt sektir á dag. Í ljósi þeirra talna sem liggja fyrir hefði verið upplýsandi að vita hvernig þetta myndi leggja sig, í ljósi styrkleika fyrirtækja eins og kveðið er á um í frumvarpinu að eigi að taka tillit til. Kannski getur framsögumaður svarað því.