151. löggjafarþing — 33. fundur,  8. des. 2020.

störf þingsins.

[14:02]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Herra forseti. Þingmenn hafa að vanda kom víða við í umræðum um störf þingsins að þessu sinni og umræður borist bæði að Bítlum, pangólín og leðurblökum. En næstu dagar munu annars vegar einkennast af því að við þurfum að afgreiða í þinginu mikilvæg mál sem tengjast fjárlagaafgreiðslu, áramótum, skattbreytingum og öðru sem því fylgir eins og á hverju ári. En til viðbótar bætast við þó nokkur mál sem eru sérstök og sérstaklega til komin vegna þeirra aðstæðna sem uppi eru í atvinnulífinu og efnahagslífinu vegna Covid-faraldursins. Það verður þess vegna mjög áberandi í þinginu að við erum að afgreiða mikilvæg mál sem tengjast fjármálum ríkisins og mikilvægt að þau klárist á góðum tíma.

Fleiri mál munum við hins vegar taka fyrir og þingflokksformenn eru að ræða það núna hvernig haganlegast sé að koma því við, m.a. út frá því hvaða málum í 1. umr. væri æskilegt að koma til nefnda fyrir jól þannig að umsagnarfrestur geti nýst yfir jól og áramót. Síðan eru stór mál, sem eru á dagskrá m.a. síðar í dag, sem gagn er að að komist til umsagnar þannig að sá tími sem líður þangað til þingið kemur aftur saman upp úr miðjum janúar nýtist sem best. Samræður þingflokksformanna hafa að sjálfsögðu falið í sér töluverða togstreitu en ég leyfi mér að segja að ástæða er til að vera bjartsýnn á að við náum saman. Þó að við séum ekki sammála um innihald málanna getum við verið nokkuð sammála um afgreiðsluna.