151. löggjafarþing — 33. fundur,  8. des. 2020.

Hálendisþjóðgarður.

369. mál
[16:16]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegur forseti. Náttúran er okkar gjöfulasta auðlind og að henni þurfum við að hlúa, við þurfum að vernda hana og bera virðingu fyrir henni. Það er íslensk náttúra sem tryggir velsæld á Íslandi. Hálendisþjóðgarður, er það góð eða slæm hugmynd? Risatækifæri eða ekki? Er það leiðin til að tryggja þau markmið að hlúa að náttúrunni og nýta hana til velsældar fyrir íslenska þjóð? Um þetta er deilt og margir með mörg mismunandi sjónarmið um þetta, og líka hvort tækifærin séu til staðar, óháð því stjórnfyrirkomulagi sem við ákveðum að hafa yfir hálendinu okkar, hjarta Íslands.

Í þessu skiptir mestu fyrirkomulagið, umfangið, stjórnskipulagið, áætlanirnar og undirbúningurinn. Þetta allt þurfum við að hafa í huga þegar við ræðum um það mikilvæga mál sem hálendið okkar er, sem náttúran okkar er og sem velsæld er. Við þurfum að komast að því hver sé besta leiðin til að ná sem bestu fram í þessu. Ferlið um hálendisþjóðgarð hefur verið mikið og langt, eins og kom fram hjá hæstv. ráðherra. Síðustu þrjár ríkisstjórnir hafa fjallað um málið. Fyrst fór það inn í landsskipulagsstefnu, svo var gerð viss valkostagreining og nú síðast var þetta sett inn í stjórnarsáttmála í annað sinn og sett af stað þverpólitísk nefnd. Þverpólitíska nefndin hafði mikið samráð og hlustaði eftir sjónarmiðum. Ég tók þátt í þeirri vinnu, lagði mig fram um að heyra þær áskoranir sem fólkið í landinu bar fram, sjónarmið og áhyggjur og tækifæri og allt það sem er í þessu. Það var mjög mikið lærdómsferli að fara í gegnum og gagnaðist mjög fyrir komandi vinnu. Í lok þeirrar vinnu gerði ég vissa fyrirvara eða tók saman minnisblað og dró saman afstöðu mína til málsins. Vinna þverpólitísku nefndarinnar var mjög góð og umfangsmikil. Þar fengum við öll þessi sjónarmið og niðurstaða skýrslunnar er: Hvað þarf að ganga upp svo að hægt sé að gera þjóðgarð um miðhálendi Íslands? Það er niðurstaðan. Mínir fyrirvarar eru þeir að allt það sem kemur fram í skýrslunni þurfi að vera uppfyllt til þess að við getum stigið þetta stóra skref. Það er náttúrlega byggt á samráði við sveitarfélögin og við hagaðila, nytjarétthafa og allt það. Það hefur verið brugðist við mörgu í því frumvarpi sem hér er en ekki öllu, og vísa ég þá í þessa samandregnu afstöðu mína sem ég birti.

Eitt vil ég þó segja um þessa vinnu: Það var engin valkostagreining um þá vinnu heldur var fyrirkomulagið að útfæra þjóðgarðinn innan vissra marka, einn þjóðgarð, ekki með mismunandi svæðum eða mismunandi að stærð, heldur var erindisbréfið svolítið þröngt þannig að það komi fram. En sátt þarf að vera til staðar, það er algjörlega víst, um svona stórt og mikilvægt mál. Þar sem orðið þjóð er notað í nafninu, þjóðgarður, og þar sem um er að ræða hjarta Íslands tel ég að mikil sátt verði að ríkja og þá sérstaklega við núverandi notendur, sveitarfélögin og núverandi umsjónaraðila hálendisins. Í landsfundarályktun Sjálfstæðisflokksins stendur t.d. að ákvörðun um hálendisþjóðgarð þurfi að vera í sátt við aðliggjandi sveitarfélög. Og ég tek undir það. Það verður að vinna þetta í sátt.

Hér er mikið talað um náttúruna og vernd náttúrunnar er eitt af meginmarkmiðunum hér. Við megum ekki gleyma því að það er mikil saga sem hálendið geymir, um byggð á Íslandi og um búskaparhætti. Þar er mikið af menningarminjum og menningarsögulegum minjum á hálendinu og þær hefðir og minjar verðum við að vernda. Þær verða að vera með í þessu ferli, við verðum að viðhalda þessu. Við þurfum að vita hvernig við höfum komist til þeirrar velsældar sem við njótum í dag, það má ekki gleymast.

Það hefur ekki alltaf verið sátt um hálendið. Þar er kannski fyrst að nefna þjóðlendumálin sem ekki hefur verið mikil sátt um. Um einstaka virkjunarmál hefur oft verið deilt, beitarmálin hafa komið til umræðu, skipulagsmálin og miðhálendislínan sem er akkúrat notuð til þess að afmarka þjóðgarðinn. Það hafa verið miklar deilur um hana en í raun eru engin efnisleg rök til fyrir miðhálendislínunni. Það kom alveg skýrt fram í þessu samráðsferli að ekkert varðandi náttúrufar eða náttúruvernd eða neitt rökstyður þá línu. Miðhálendislínan er til út af einstöku skipulagsatriði fyrir löngu og átti aldrei að nota hana aftur, við skulum hafa það alveg á hreinu í þessu.

Ég held að við getum verið algerlega sammála um að hálendið hingað til og nú er í góðum höndum. Það hefur verið í góðum höndum. Bændur og búalið hafa hugsað um hálendið, lagt ómælda vinnu í að græða það upp, farið inn á hálendið og fylgst með og lagt því lið. Sveitarfélögin, og þá helst í gegnum upprekstrarfélög sín eða aðra tengda starfsemi, hafa lagt ómælda vinnu og fjármuni í að hugsa um hálendið. Útivistarfélögin hafa verið með mikla sjálfboðavinnu og byggt upp mikla innviði, nýtt hálendið og verið dugleg að kynna það og gera það aðgengilegra fyrir fólkið í landinu. Orkufyrirtækin hafa gengið um landið með mikilli virðingu, tryggt þar aðgengi og visst öryggi og annað slíkt og hafa verið mjög framsækin í að reyna að draga úr umhverfisáhrifum sínum á svæðunum. Við verðum að varðveita þetta og tryggja og hafa í huga að hálendið er í góðum höndum í dag. Það er ómæld vinna unnin þarna og því frumkvæði má alls ekki tapa og ekki setja þá starfsemi sem er þarna núna í neitt uppnám. Þetta þarf allt að geta gengið saman í takt, það er hluti af sáttinni.

Ég vildi líka nefna að sá hluti hálendisins sem verið er að tala um að bæta við Vatnajökulsþjóðgarð í hálendisþjóðgarðinum er gjörólíkur hinu svæðinu. Þetta eru tvö svæði og aðstæður gjörólíkar. Vatnajökulsþjóðgarður er um 14% af flatarmáli Íslands og er að meginstofni til jökull. Ég veit ekki hvort það er fjarlægðin frá höfuðborgarsvæðinu eða aðgengismál eða annað sem veldur því að álag vegna ferðamanna er ekki eins mikið í Vatnajökulsþjóðgarði og á hinu svæðinu, suðurhálendinu, og þar eru ekki eins fjölfarnir ferðamannastaðir. Á suðurhálendinu eru stærstu ferðamannastaðir hálendisins, þar eru stóru afréttirnir, þar eru stóru veiðifélögin, þar eru aðgengilegri samgöngur þannig að þetta er allt miklu stærra og umfangið er meira. Þetta er fjölbreyttara, þetta er stjórnsýslulega flóknara og annað slíkt. Ég er ekkert viss um að okkur vanti endilega fleira fólk inn á suðurhálendið, eða hvort við séum einfaldlega tilbúin til að taka við fleira fólki í Landmannalaugum, sem dæmi. Erum við tilbúin til þess?

Ég vil benda á að þó að Landmannalaugar og Fjallabak sé friðlýst svæði en ekki í þjóðgarði hefur skipulag þar lengi verið tilbúið. Það er að frumkvæði heimamanna og núverandi notenda í Landmannalaugum að það er tilbúið en hefur samt ekki fengið að ganga fram. Við verðum að hafa þetta í huga þegar við ræðum þetta stóra og mikilvæga mál. En sú uppbygging sem orðið hefur á suðurhálendinu og víða annars staðar um landið er grundvölluð á þjóðlendulögum. Ég nefndi þjóðlenduna áðan. Nú loksins, rúmum 20 árum seinna, er að myndast eitthvert fyrirkomulag sem sátt er orðin um, reynsla og þekking í kerfinu, samskipti sveitarfélaga og forsætisráðuneytisins. Þarna hefur bara komist á ferli og ef bregðast þarf við er orðið nokkuð þægilegt að bregðast hratt við. Það er komin viss sátt og reynsla. Það tengist því sem ég kom inn á í andsvörum við hæstv. ráðherra hér áðan, en það er hvernig við verðum tilbúin. Ég held að það sé svolítið hættulegt að fara í svona umfangsmikinn og stóran þjóðgarð og breyta skipulaginu á svona stóru svæði, sem er nú þegar fjölfarið, án þess að vera algerlega komin með alla ferla og allt fyrirkomulag niðurnjörvað. Við höfum það nú þegar í þjóðlendumálunum og það er nýkomið á. Við þurfum að fara varlega í að breyta um kúrs þegar við erum nýkomin yfir ána.

Í svona stóru og umfangsmiklu og mikilvægu máli eru náttúrlega alltaf mismunandi meiningar og sjónarmið. Ég kom inn á það áðan að ég skilaði samandreginni afstöðu við skýrslu þverpólitísku nefndarinnar og stend enn við það. Þingflokkur Sjálfstæðisflokksins hefur gert það að sínu og sett vissa fyrirvara í meðförum málsins. Við munum taka þá með okkur inn í vinnuna við málið hjá umhverfis- og samgöngunefnd. Ég ætla að fara örstutt yfir þessa fyrirvara. Það er fyrst og fremst um afmörkun, um umfangið og stærðina, hvað fellur þarna undir og annað slíkt. Við höfum kannski talað fyrir því að við ættum að byrja á því að sameina friðlýstu svæðin á hálendinu og vinna þetta svo áfram eftir því sem við erum tilbúin til að fara lengra. Það sem er inni í fyrirkomulagi friðlýstra svæða, við skulum halda áfram með það og stækka og láta svæðin þar sem þjóðlendurnar eru vera. Á meðan við erum að klára ferli rammaáætlunarinnar getum við líka látið aðrar áætlanir Alþingis kallast á við þetta þannig að stjórnvöld séu að láta allar sínar áætlanir tala saman. Við höfum sameinast um ferli varðandi kerfisáætlun Landsnets, rammaáætlunarferli og annað slíkt. Við þurfum að láta þetta tala saman, ég held að það sé mikilvægt. Það var niðurstaða þverpólitísku nefndarinnar, svo að þess sé getið, að svo ætti að vera. Varðandi orkuflutninga er nauðsynlegt að búið sé að finna leið til að tryggja nægan raforkuflutning um land allt, það er afstaða Sjálfstæðisflokksins.

Svo er það frumkvæðismátturinn, sem ég kom aðeins inn á. Það er gríðarlega mikilvægt að hann tapist ekki og allt þetta sjálfboðaliðastarf, frjáls framlög og allt það sem upprekstrarfélögin, bændurnir, allir nytjarétthafar, ferðaþjónustan og núverandi starfsaðilar á hálendinu eru að gera; að samstarfssamningar séu klárir við núverandi rekstraraðila inni á hálendinu eða umsjónaraðila, þannig að þegar þjóðgarðurinn tekur til starfa gangi þetta eins og smurð vél, það sé búið að gera samstarfssamninga þannig að núverandi starfsmenn geti haldið óhikað áfram. Það er mikilvægt að nýta einkaframtakið, sem hefur reynst vel í náttúruvernd, enn frekar og það þarf að fá sitt svigrúm þarna og líka til þess að byggja upp innviðina. Það var ein niðurstaða þverpólitísku nefndarinnar að ríkissjóður ætti ekki að byggja upp alla innviðina heldur ætti það að vera í samstarfi við einkaaðila, samstarfi við sveitarfélögin og annað slíkt. Það fyrirkomulag þarf líka að liggja fyrir strax í upphafi, af því að þetta má ekki verða bákn. Það má ekki búa til bákn yfir hálendinu og fjölgun opinberra starfa er ekki byggðamál, ég fullyrði það. Þjóðgarðurinn eða skipulag hálendisins eða hálendið í heild sinni, hvort sem það er út frá þjóðgarðsskipulagi eða öðru skipulagi, á að skapa almenna atvinnuuppbyggingu þannig að einhver verðmætasköpun sé í gangi og annað slíkt. Það er aðalatriðið hér að tækifærin skapi fjölbreytt störf en ekki bara störf landvarða, það er ekki raunveruleg uppbygging. Almannarétturinn og ferðafrelsið, við verðum að halda því óbreyttu og það er hluti af menningarminjum og sögulegri menningu sem ég talaði um og við verðum að vernda. Öryggismálin eru gríðarlega mikilvæg, að öryggi sé tryggt en ekki einungis treyst á að björgunarsveitirnar sinni öryggi gesta í sjálfboðavinnu. Það þarf að þróa það. Fjármögnunin þarf að vera á hreinu og þá skiptir miklu máli hvert hlutverk þjóðgarðsins verður, hvaða hlutverki ætlum við að láta einkaaðila sinna eða heimaaðila og núverandi umsjónarmenn. Það skiptir miklu máli og svo sáttin sem ég hef talað mikið um.

Ég ætla aðeins að koma inn á stjórnfyrirkomulagið. Ég er mjög hrifinn af því að stefnt sé að því að hafa sem mest samtal og mest samráð, það tengist þessari sátt, en hvort rétt sé að hafa 70 manna stjórnkerfi í sex svæðisráðum og svo stjórn sem er ofan á núverandi skipulag sveitarfélaganna og alla þá ferla með fólki sem er í frjálsum félagasamtökum í sjálfboðastarfi og annað, hvort það sé alveg rétt, ég er farinn að efast um það.

Ég segi bara að lokum: Það er nauðsynlegt að allur undirbúningur og mat á áhrifum þessa taki til náttúruverndar, öryggis gesta og upplifunar gesta, hvort við séum tilbúin að þessu leyti áður en þjóðgarðurinn tekur til starfa.