151. löggjafarþing — 34. fundur,  9. des. 2020.

um fundarstjórn.

[16:03]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Herra forseti. Forseti hefur oft áminnt mig um að tala ekki of lengi í ræðustól, og tek ég það ekki persónulega. Ég veit að forseti reynir að gæta starfa sinna af kostgæfni og ég held að þingmenn þurfi ekki að vera hörundsárir þó að forseti láti orð falla eins og hér var gert og biðji menn að gæta orða sinna þegar þeir láta í sér hvína í pontu. Ég vildi hins vegar bregðast við athugasemd sem kom hér fram frá hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur. Ég held að það sé rangt, og ég myndi mótmæla því ef hún héldi því aftur fram hér, að málfrelsi þingmanna hafi verið skert í þessu Covid-ástandi. Málfrelsi þingmanna hefur ekki verið skert í ræðustól þingsins. Tilmæli hafa verið um að ekki séu allir hér í þingsal í einu, en málfrelsi þingmanna hefur ekki verið skert. Allir hafa getað tekið til máls í þeim málum sem þeir vilja.