151. löggjafarþing — 35. fundur,  10. des. 2020.

fjárlög 2021.

1. mál
[18:50]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Birgir Þórarinsson) (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna og vil koma aðeins inn á landbúnaðinn við hann hér í andsvari. Hv. þingmaður kom einnig inn á landbúnaðinn í andsvari við hv. þm. Jón Steindór Valdimarsson og fjallaði einmitt um áhyggjur sínar af stöðunni í greininni og ég tek heils hugar undir þær.

Það sem mig langaði að spyrja hv. þingmann út í er að núna er staðan alvarleg, þ.e. birgðasöfnun er mjög mikil og ofan á það allt saman er misbrestur í tollaframkvæmd. Hér hefur flætt inn miklu meira af erlendum landbúnaðarvörum en var leyfilegt samkvæmt samningum og nú er offramboð á landbúnaðarvörum í Evrópusambandinu vegna veirufaraldursins eins og hér, en Evrópusambandið hefur hins vegar getað flutt vörur hingað inn á okkar markað sem er fullmettaður og rúmlega það, meira en heimilt var samkvæmt samningum, þannig að það hefur allt valdið gríðarlegum vanda innan landbúnaðarins eins og hv. þingmaður þekkir.

Nú langar mig að spyrja hv. þingmann út í þær aðgerðir sem hefur verið ráðist í, sem ég tel persónulega að séu ágætar svo langt sem þær ná en þær koma reyndar ansi seint. Það eru rúmar 700 milljónir til sauðfjárbænda og rúmar 200 milljónir til nautgripabænda vegna birgðastöðunnar. Hvað með aðrar greinar, eins og t.d. svínakjötsframleiðslu, þar sem er mikil birgðasöfnun? Mikil birgðasöfnun er einnig í mjólkurpróteini og svo nefndi hv. þingmaður að ekki er hægt að fara með skepnur í slátrun o.s.frv. vegna ástandsins. Telur hv. þingmaður að það sé nægilegt sem lagt er upp með hér af hálfu ríkisstjórnarinnar og hvað með hinar greinarnar sem hafa ekki fengið neinn stuðning, eins og ég nefndi hér? Sér hann fyrir sér að komið verði til móts við þær?