151. löggjafarþing — 35. fundur,  10. des. 2020.

fjárlög 2021.

1. mál
[20:36]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Birgir Þórarinsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið og langar aðeins að koma inn á málaflokk sem hann er þekktur fyrir að tala mikið fyrir og hefur ágæta þekkingu á. Það eru loftslagsmálin og í því sambandi langar mig að ræða sérstaklega skógræktina. Skógrækt er ein af helstu mótvægisaðgerðum okkar í loftslagsmálum og getur orðið mjög veigamikill þáttur í loftslagsaðgerðum Íslands, fái greinin nægilegt fjármagn en á það hefur skort. Auk þess skapar skógræktin fjölmörg störf og það veitir náttúrlega heldur ekki af því. Nýskógrækt dregur úr losun gróðurhúsalofttegundanna sem við ræðum svo oft hér og bindur kolefni í jarðvegi. Miðflokkurinn hefur talað mikið fyrir því að auka verulega fjármagn til skógræktar og við höfum ekki alveg verið á þeirri línu að skattleggja almenning út úr þessum aðgerðum eins og er gert t.d. með kolefnisskattinn sem hefur hækkað mikið, auk þess sem einungis hluti þess skatts rennur til loftslagsmála. Ég vildi kannski fá álit hv. þingmanns á því hvort hann telji ekki eðlilegra að við einbeitum okkur að einum þætti ofar öðrum í þeirri baráttu. Þá liggur nærtækast við að fara í skógræktina. Hún er miklu minna umdeild en aðrar aðgerðir og felur ekki í sér skattlagningu á almenning. Það væri gott að fá álit hans á því. Í lokin langar mig að vita hvort hv. þingmaður mun styðja breytingartillögur Miðflokksins við fjárlögin um aukna fjármuni til skógræktar.