151. löggjafarþing — 37. fundur,  14. des. 2020.

yfirlýsing um neyðarástand í loftslagsmálum.

[15:42]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Munurinn frá fyrstu aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar til þeirrar sem uppfærð var og kynnt í sumar er í raun töluvert mikill að því leyti til að hin uppfærða áætlun tekur til ólíkra geira samfélagsins, hún er geiramiðuð. Eftir að sérfræðingar Stjórnarráðsins í þessum málum hafa farið yfir þetta þá er það mat manna að fyrst og fremst þurfi að efla þessar aðgerðir, vinna þær hraðar til að ná þessum samdrætti. Áfram séum við að stefna að ákveðnum lykilþáttum, hvort sem það eru orkuskipti í samgöngum, kolefnishlutleysi tiltekinna greina, orkuskipti í sjávarútvegi o.s.frv. Við þurfum að efla þessar aðgerðir.

Það sem kemur í framhaldinu er eins og gerist með slík markmið. Við settum þessi markmið fram. Ég er mjög ánægð með að Ísland hafi tekið þátt í þessum fundi. Það voru ríki sem sóttust eftir að taka þátt í honum sem ekki fengu að gera það vegna þess að þau voru ekki talin komin nægilega langt í áætlunum sínum. Ég tel að við byggjum á þeim grunni sem við kynntum í sumar og fjármálaáætlun (Forseti hringir.) verður lögð fram í vor þar sem þessa mun sjá stað. Þá verður væntanlega orðið ljóst hvaða aðgerðir við viljum efla og hverju við viljum flýta.