151. löggjafarþing — 37. fundur,  14. des. 2020.

skráning einstaklinga.

207. mál
[21:01]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni og þakka fyrir þá ábendingu að lögin séu í endurskoðun. Ég held að mjög mikilvægt sé að þetta verði skoðað. Það eru ekki margar konur á Íslandi sem gefa barn sitt til ættleiðingar við fæðingu en það eru nokkur tilfelli á hverju ári. Ég held að það sé fullkomlega eðlilegt og sanngjarnt að þessar konur fái fæðingarorlof vegna þess, eins og ég nefndi sérstaklega áðan, að þær gætu þurft að leita sér aðstoðar, þær gætu verið frá vinnu og ýmislegt sem tengist þessari stóru ákvörðun í lífi þeirra og svo náttúrlega fæðingunni. Ég vil því hvetja hv. þingmann til að koma í lið með mér um að þetta verði skoðað alvarlega og verði vonandi að veruleika fyrr en síðar.