151. löggjafarþing — 37. fundur,  14. des. 2020.

skráning einstaklinga.

207. mál
[21:02]
Horfa

Frsm. allsh.- og menntmn. (Silja Dögg Gunnarsdóttir) (F) (andsvar):

Frú forseti. Já, en þá þurfum við kannski samt að athuga eitt mikilvægt atriði, þ.e. að fæðingarorlof er náttúrlega hugsað fyrir barnið fyrst og fremst, að það njóti samvista við foreldra sína og myndi nauðsynleg tengsl í frumbernsku. Án þess að ég sé sérfræðingur í lögum um fæðingarorlof vil ég fara yfir hugleiðingar mínar hvað þetta varðar. Ef kona er það veik eftir fæðingu að hún getur ekki stundað vinnu geri ég ráð fyrir að hún leiti læknis og fái veikindaleyfi ef fæðingunni fylgja alvarlegir kvillar og annað þannig að viðkomandi getur ekki stundað vinnu. Fæðingarorlofið er annars eðlis í sjálfu sér. Það hefur farið fram mikil vinna undanfarin ár, má segja, við endurskoðun laga um fæðingarorlof og málið mun koma til umræðu á næstunni hér á Alþingi. Ég geri ráð fyrir því að við hv. þingmaður munum taka þátt í þeirri umræðu.