151. löggjafarþing — 38. fundur,  15. des. 2020.

skattar og gjöld.

314. mál
[15:13]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (U):

Herra forseti. Hér er lagt til að niðurgreiða bensínbíla og það er sagt í þágu orkuskipta. Sum ríki eru á þeim slæma stað að styðja óendurnýjanlega orkugjafa með meiri ríkisstyrkjum en endurnýjanlega. Með þessu á að taka upp einmitt þannig kerfi fyrir bílaleigur hér á landi. Fyrir hverja krónu sem ríkið styrkir þær til að kaupa vistvæna bíla er lagt til að þær geti fengið allt að 2 kr. í styrk til kaupa á mengandi bensín- og dísilbílum. Á sama tíma og stjórnvöld boða meiri metnað í loftslagsmálum er meira en lítið öfugsnúið að vilja niðurgreiða bensínbíla í þágu orkuskipta. Þessi milljarðastuðningur við bílaleigur og bílinnflytjendur er margt en vistvænn telst hann seint og hann vinnur beinlínis gegn markmiðum Parísarsamningsins.

Ég segi nei.