151. löggjafarþing — 38. fundur,  15. des. 2020.

græn atvinnubylting.

360. mál
[18:50]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegur forseti. Ég kem hingað upp vegna þess að ég vil styðja þetta mál og hefði gjarnan viljað vera á því. Ég tel að markmiðin sem þar er að finna séu góð og að við ættum að vinna saman að því að uppfylla þau. Ég held að það sé mjög mikilvægt að við stefnum að sjálfbærari og mannvænni atvinnuvegum á Íslandi. Mér finnst þessi tillaga ríma ágætlega við tillögu Pírata um sjálfbæra iðnaðarstefnu, ég hugsa að það geti unnið vel saman. Ég vil hvetja þingheim til að kynna sér þessar tillögur og til að yfirstíga mörkin milli stjórnar og stjórnarandstöðu þegar kemur að því að ræða þær og koma þeim áfram í gegnum þingið. Ég held að ríkisstjórnin ætti að vera aðeins metnaðarfyllri í áætlunum sínum þegar kemur að loftslagsmálum og mætti alveg hlusta á aðra en sjálfa sig af og til þegar kemur að því hvernig ætti að standa að því. Ég legg til að hún kynni sér a.m.k. þessar tillögur og athugi hvort hún sé mögulega til í að styðja þær þar sem þær virðast bara ágætlega úr garði gerðar og þar sem ríkisstjórnin hefur lýst yfir að hún vilji standa sig betur en hún er að gera núna. Ég legg því til að við reynum að vinna þetta mál hratt og vel ásamt sjálfbærri iðnaðarstefnu Pírata og ýmsum fleiri góðum grænum málum sem finna má hér á ýmsum svæðum í kringum þingið sem ekki endilega tilheyra ríkisstjórnarbekknum. Ég vildi bara lýsa yfir stuðningi mínum við þetta mál. (BLG: Heyr, heyr.)