151. löggjafarþing — 38. fundur,  15. des. 2020.

nauðungarsala.

270. mál
[19:04]
Horfa

Sara Elísa Þórðardóttir (P):

Forseti. Ég er stolt af því að það sé flokkurinn minn sem á frumkvæðið að því að þetta mál sé komið á dagskrá í kvöld og að við ræðum það í þingsal núna í þetta sinn undir þessum erfiðu kringumstæðum í samfélaginu, í þjóðfélaginu og í heiminum öllum. Þetta mál er réttlætismál og mikilvægt er að bregðast við strax. Þess vegna, eins og kom fram í máli hv. þm. Jóns Þórs Ólafssonar, er mikilvægt að þetta sé komið núna og það sé eitthvað gert núna strax til að tryggja að fólk sem býr jafnvel við atvinnumissi nú þegar, yfirvofandi atvinnumissi og óöryggi hvað varðar lífsviðurværi sitt, þurfi ekki í ofanálag að hafa áhyggjur af því að missa heimilin sín. Það er mikilvægt að bregðast strax við. Ég hvet hæstv. ríkisstjórn til að hafa augu og eyru opin gagnvart þessu máli og fara strax í þær aðgerðir sem þarf til að það fari hratt og vel í gegn hér á þingi.

Málið sýnir kannski í verki hvernig við Píratar nálgumst hlutina, sýnir hver forgangsröðun okkar er; heimilin í landinu. Við höfum séð skjót og í mörgum tilfellum ágætisviðbrögð við vanda fyrirtækja núna á þessum erfiðu Covid-tímum en heimilin eru ekki síður mikilvæg og hér sýnum við hver forgangsröðun okkar er. Þetta er raunverulega réttur fólks að við í þessu velferðarríki, Íslandi, tryggjum þetta öryggi núna þegar slík vá gengur yfir okkur. Þetta ástand hefur valdið gífurlegri streitu í samfélaginu, hjá okkur öllum og inni á öllum heimilum og ég held bara hjá vel flestum einstaklingum fyrir margra hluta sakir. Streita er þekkt lýðheilsuvandamál. Því er það raunverulega hlutverk ríkisins og okkar sem hér störfum að beita okkur fyrir þeim hlutum sem geta dregið úr streitu og lýðheilsuvandamálum. Þetta mál er algerlega borðleggjandi gagnvart því og borðleggjandi að það muni veita öryggi og að fólk þurfi ekki ofan á allt annað að hafa áhyggjur af því að missa heimili sín, sem er oft heilagur staður fyrir mörgum.

Forseti. Ég vænti þess að Alþingi og ríkisstjórnin sýni þessa sjálfsögðu mannúð gagnvart þeim sem vegna algerlega óviðráðanlegra aðstæðna, sem þessi Covid-faraldur er, gætu verið komnir í mjög vonda og afleitu stöðu sem ógnar öryggi þeirra og skjóli. Við eigum að vera svoleiðis samfélag og ég trúi því að við viljum vera svoleiðis samfélag. Við viljum að Ísland, velferðarríkið, geti staðið undir því nafni enda er það hagur okkar allra. Það er hagur okkar allra að sýna hvert öðru skilning, mannúð, liðlegheit, samhygð og samúð og við höfum gert það að mörgu leyti í þessu ástandi. En hér er uppskrift að öðru skrefi í þeim efnum. Ég hvet þingheim allan til að taka vel á móti þessu máli, koma því í gegn og auka á farsæld þessa samfélags sem við búum í.