151. löggjafarþing — 38. fundur,  15. des. 2020.

kirkjugarðar, greftrun og líkbrennsla.

271. mál
[20:16]
Horfa

Flm. (Bryndís Haraldsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka aftur andsvarið. Það var einmitt með ráðum gert að ég skrifaði það ekki nákvæmlega niður í frumvarpið. Ég áttaði mig á því að auðvitað kunna að vera misjöfn sjónarmið um það og þetta er gert ekki síst til að hreyfa við umræðunni og ég vænti þess að nefndinni berist líka umsagnir frá þar til bærum aðilum.

Þegar ég hóf vinnu við þetta mál fór ég að forvitnast um hvort einhver ástæða væri fyrir þessum stífa lagaramma í dag, eitthvað í hollustuháttum og mengunarvörnum eða eitthvað slíkt. Ég vissi í rauninni ekkert hverju ég var að leita að en ég fann ekki neitt þannig að ég sé það ekki, ekki nema það séu einmitt tilfinningar okkar. Hv. þingmaður kom t.d. inn á þéttbýli og einkaland en sjálfri, virðulegur forseti, finnst mér það ekki skipta máli. Ég treysti fólki til að taka við ösku látins ættingja og fara með hana af virðingu og virða ósk hins látna.

Ég sé ekki að ósk hins látna, að gefa eftir þetta frelsi, geti einhvern veginn haft áhrif á okkur hin, að það leiði á einhvern hátt til tjóns fyrir aðra. Þess vegna skil ég ekki ástæðuna fyrir því að vera með þetta mjög mikið njörvað niður. En auðvitað er það þannig að það þarf að virða eignarland en varla verður ösku einhvers dreift í garðinn hjá nágrönnunum, en væri frjálst að gera það í eigin garði eða gróðurreit eða sumarbústaðalandi.

Ég hef reyndar ekki velt því fyrir mér varðandi persónuverndarmálin. Þá er legstaðaskráin væntanlega öll undir, ef ég skil hv. þingmann rétt. Ég hef frekar litið á það þannig að það væri eitthvað fallegt við það. En það má velta því fyrir sér, kann að vera, án þess að ég þekki það, að fólk geti óskað eftir því að það sé ekki skráð í legstaðaskrá. (Forseti hringir.) Ég bara verð að viðurkenna, virðulegur forseti, að ég þekki það ekki.