151. löggjafarþing — 39. fundur,  16. des. 2020.

tekjuskattur og staðgreiðsla skatts á fjármagnstekjur .

374. mál
[12:33]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir framsögu fyrir áliti minni hluta hv. efnahags- og viðskiptanefndar. Hv. þingmaður hafði nú kannski ívið sterkari orð um þessa hluti en ég átti beinlínis von á, en auðvitað vega orð hv. þingmanns mjög þungt í umræðunni um þessi mál, hér er fyrrverandi fjármálaráðherra á ferð með mikla reynslu á þessu sviði. Það sem skiptir mestu í þessu er að eðli málsins samkvæmt er skattlagning á fjármagnstekjur flókið fyrirbæri. Hluti af fjármagnstekjum eru verðbætur þannig að það eru ekki eiginlegar tekjur, það er uppbót fyrir verðbólgu og annað af því tagi. Síðan getur það verið þannig að í eignasafni venjulegs fólks geta skipst á skin og skúrir í því tilliti að ein eign hafi borið arð eða ávöxtun en önnur hafi falið í sér tap fyrir viðkomandi. Þannig að það eru mjög margar spurningar sem vakna.

Það sem ég er að velta fyrir mér og vildi gjarnan leyfa mér að spyrja hv. þingmann um er: Hvað vegur þyngst í huga hennar í þessu sambandi? Er það að þessi skattlagning sé með þeim hætti að hún megi teljast réttlát og sanngjörn þannig að verið sé að skattleggja eiginlegar tekjur? Eða er tímasetning þessa frumvarps helsta vandamálið í huga hv. þingmanns af því að við erum hér í erfiðri stöðu í efnahagslegu tilliti? Ég hef hins vegar tekið eftir því að í tillögum flokks hv. þingmanns við afgreiðslu fjárlaga eru lægstu fjárhæðirnar yfirleitt 4 eða 5 milljarðar.