151. löggjafarþing — 39. fundur,  16. des. 2020.

tekjuskattur og staðgreiðsla skatts á fjármagnstekjur .

374. mál
[16:10]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ég vil koma þremur atriðum á framfæri við þessa atkvæðagreiðslu. Ég styð frumvarpið, svo að það sé skýrt tekið fram, og er á nefndarálitinu. Það kann þó að vera að þetta sé ekki endilega heppilegasti tíminn til að gera þessar breytingar en engu að síður styð ég þær.

Þá vil ég líka vekja athygli á því að felldar eru brott úr frumvarpinu tvær greinar sem lúta að skattlagningu gengishagnaðar af sérsniðnum sparnaðarreikningum sem fólk leggur gjaldeyri inn á. Ég get ekki látið þetta tækifæri fram hjá mér fara til að minnast á hve dásamlegt það væri ef við hefðum annan gjaldmiðil en krónu og þyrftum ekki að vera að velta svona reddingum fyrir okkur.

Að síðustu vil ég líka taka sérstaklega undir það að skoða þarf fjármagnstekjuskattinn og sveitarfélögin sérstaklega og það kemur fram í meirihlutaálitinu. Ég vildi láta það koma fram.