151. löggjafarþing — 39. fundur,  16. des. 2020.

búvörulög.

376. mál
[17:36]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Það hefur verið áhugavert að hlusta hér á ræður og andsvör þingmanna. En í ljósi þessa máls, sem ég er ekki mjög hrifin af, vil ég segja að ég tel aðgerðir stjórnvalda sem boðaðar eru í þessu máli ekki gagnast bændum, ekki beint, og þaðan af síður neytendum, en ég kem að því á eftir. Mér finnast stjórnvöld beita sér á rangan hátt með aðgerðum sínum. En ég verð engu að síður að segja að ég hef haft mjög gaman af því að hlusta á þessa umræðu. Ég verð að segja að ég fyllist líka ákveðinni von um að við hættum þessari stefnu. Mér hefur stundum þótt ákveðnir flokkar vera í kapphlaupi um það hverjir séu bestu vinir landbúnaðarins og því meiri höft og miðstýring, þeim mun betra sé það fyrir bændur. Þar er mikill misskilningur þar á ferð. En ég vil hins vegar draga það fram, og ég geri mér grein fyrir því að það er ekki endilega gott fyrir Sjálfstæðisþingmenn að fá hrós frá Viðreisnarþingmanni, hvað þá formanni, að ég bind vonir við margt af því sem fram kom í ræðu hv. þm. Haraldar Benediktssonar sem talaði hér af ástríðu, af þekkingu og reynslu, og að hluta til biturri reynslu, eins og við mörg sem höfum verið í pólitík og fylgst með málum á þessum vettvangi og starfað þar innan.

Það sem ég tek út úr umræðunni, og vil segja áður en ég kem að málinu sjálfu, er að það er ótvíræður stuðningur við íslenskan landbúnað. Þann samhljóm eigum við að nýta. Við eigum að hlusta á raddir reynslumikils fólks innan landbúnaðarins, líka á meðal neytenda, innan verslunar og síðan auðvitað líka hér innan þings, því að sama hvað fólk segir um okkur þingmenn þá búum við blessunarlega í þannig samfélagi og erum með þannig þing, alla vega enn þá, að það er stutt fyrir fólk að klukka þingmanninn sinn, koma ábendingum áleiðis, taka samtalið, taka símtalið, senda póst, senda skilaboð til að koma sjónarmiðum, ábendingum, skilaboðum og gagnrýni á framfæri. Margt af því sem ég fæ að heyra er tengt íslenskum landbúnaði, en ég vil samt segja: Þó að raddirnar séu mismunandi þá liggur sá fallegi þráður í gegnum allt að við viljum styðja við íslenska bændur. En það er bara ekki sama hvernig það er gert. Þess vegna verðum við að læra svolítið af reynslunni og átta okkur á hvernig við getum gert það. Við í Viðreisn höfum sagt það margítrekað, m.a. á þessu kjörtímabili. Þess vegna fagna ég því sem hv. þm. Haraldur Benediktsson kom inn á og mér finnst að við eigum að taka lengra, þ.e. að fara yfir þá samninga, tollasamninga og aðra samninga sem gerðir eru í þágu bænda, og meta til fjár þá samninga og gera þá hluta af samningum við bændur. Við í Viðreisn höfum sagt: Verðmetum þá tollverndina. Höfum hana minni, af því að þar sem samkeppnin er meiri í landbúnaðarvörum, það hefur alltaf sýnt sig og við sjáum það af verðlagskönnunum ASÍ og af verðlagskönnunum Hagstofunnar og fleiri, þar er verðið lægra og fjölbreytnin meiri. Og þar sem er minni samkeppni er verðið hærra. Það sýna kannanir okkur.

Ég skil vel ótta bænda vegna mikils innflutnings. Það er gömul saga og ný. Þá stöðu upplifðu íslenskir húsgagnaframleiðendur t.d. þegar við gengum í EFTA á sínum tíma. Þá þurftu þeir að aðlaga sig nýjum og breyttum veruleika. Þá var talað um að íslenskur sælgætismarkaður myndi leggjast af o.s.frv. Þessir aðilar aðlöguðu sig, það var hagræðing en það varð til þess að við sáum líka annað og meira vöruúrval á Íslandi, bæði innlent sem erlent. Gildir þetta um íslenskan landbúnað? Að hluta til. En það er samt þannig að við þurfum að tryggja hér matvælaframleiðslu og við þurfum að búa bændum það umhverfi að þeir geti staðið undir því að sinna markaðnum, sinna heimamarkaðnum samhliða því að taka tillit til umhverfisins. Þar erum við með tæki sem við eigum að nota til þess að styðja enn frekar við bændur. Við í Viðreisn munum leggja fram tillögu þar um, þegar líður á nýtt ár, að við setjum inn græna hvata sem munu nýtast bændur til að tengja betur við loftslagsmálin en líka til að veita þeim aukið frelsi innan þess ramma eins og hægt er að gera.

Heyrum þennan samhljóm, sem mér finnst ánægjulegur, um að við eigum að styðja við landbúnað, styðja við bændur. Um leið þurfum við að taka stöðu bænda alvarlega, og það hafa fleiri nefnt hér í dag. Auðvitað er staðan í landbúnaði misgóð. Það eru ákveðnir bændur sem eiga hvað erfiðast núna, ekki hvað síst sauðfjárbændur sem hafa á þessum tíma verið með til hliðar þá atvinnugrein sem orðið hefur að vissri viðspyrnu um landsbyggðina alla, sem er ferðaþjónustan. Þannig að á ákveðnum sviðum og á ákveðnum svæðum eru erfiðleikarnir miklir. Við verðum að horfast í augu við það. Ég tek undir það og segi: Viðreisn er til að fara í víðtæka vinnu þvert á flokka til þess að byggja upp íslenskan landbúnað og vera með þessi sjónarmið: Íslenskur landbúnaður, íslenskir neytendur. Það er samasemmerki og samhljómur þar á milli. Reynum að styrkja það sjónarmið.

Við erum hins vegar augljóslega með mismunandi sýn á hlutina og það kemur skýrast fram í áliti Miðflokksins og tillögu hans. Enn og aftur ætla ég að fá að hrósa hv. þm. Haraldi Benediktssyni, sem er örugglega í snúinni stöðu, fyrir að koma og segja: Já, við þurfum að taka meiri hagsmuni fram yfir minni. Við þurfum að gera það. Þannig þurfa stjórnmálamenn að þora að tala. Nei er líka svar. Humm og ha er ekkert svar og það er óboðlegt svar fyrir okkar umbjóðendur, hvar sem þeir búa á landinu. Að málflutningur Miðflokksins skuli vera með þeim hætti að bjóða upp á að raska samningum sem við höfum gert á forsendum viðskipta, finnst mér einfaldlega ekki boðlegt. Mér finnst það vera angi af þessu kapphlaupi um hver sé mesti og besti vinur bænda. Við eigum að vera komin lengra en svo að nýta okkur hina góðu og jákvæðu ásýnd og jákvæðan vilja bænda og jákvæðan vilja almennings á Íslandi til bændastéttarinnar í hagsmunapoti fyrir stjórnmálaflokka. Þess vegna vara ég við þeirri leið sem Miðflokkurinn er að fara.

Viðreisn er á móti þessu máli eins og það er lagt fram en ég hef fullan skilning á því að við setjum fram hugmyndir til að styrkja bændur á þessum erfiðu tímum sem hafa mátt þola, eins og fólk í öðrum atvinnugreinum, en ekki síst þeir, mikið fall í neyslu, ekki síst í veitingahúsabransanum. Þó að innkaup í verslunum hafi ekki dregist svo mikið saman þá hefur veitingageirinn hrunið eins og við vitum. Viðreisn hefur komið með tillögur til þess að styðja veitingageirann með það að leiðarljósi. Það sama erum við tilbúin að gera varðandi bændur. Þess vegna leggjum við til, til að tækla þetta tímabundna ástand, það er tímabundið en þetta eru náttúruhamfarir núna fyrir bændur sem og aðra, að landbúnaðarráðherra verði falið að útfæra beina styrki til bænda samkvæmt þeim skilyrðum sem gerð eru um beingreiðslur til bænda og þá sem uppfylla ákveðin skilyrði. Við óttumst verulega þá leið sem verið er að fara. Vel að merkja þá flutti hæstv. landbúnaðarráðherra ágætisræðu fyrir ári síðan þegar lögunum var breytt í áttina að oggulitlu frjálsræði, en þeim var samt breytt og það skref skiptir máli. Þó að það hafi tekið ráðherra meira en tvö ár að koma þeim breytingum á dagskrá þingsins þá var lögunum engu að síður breytt í áttina að auknu frelsi, eða eins og ráðherra sagði þá, til að neytendur gætu hagnast á því í formi vöruverðs og smáverslun með sanngjarnara umhverfi. Viðskiptaumhverfið fyrir landbúnaðarvörur var eflt og skerpt fyrir ári síðan. En frá þessu er verið að hverfa núna með því að reisa múra. Flestir þeir sem nefndu neytendur og þau áhrif sem þetta hefði á markaðinn vöruðu einmitt við þessari aðferðafræði af því að þetta myndi hafa áhrif á heimilin og heimilisbókhaldið, áhrif á neytendur. Og það er ekki síst núna við þessar aðstæður, þegar um 25.000 manns eru atvinnulausir, sem svona aðgerðir stjórnvalda skipta miklu máli, sem hafa þessi áhrif á heimilin og neytendur landsins, sem leiða til hækkunar á matarkörfunni, og ekki síst þann hóp sem verst er staddur.

Ég ítreka að við erum að leggja fram tillögu til að styrkja bændur. En við viljum ekki fara þá leið sem hér er lögð til af því að hún er vond, við óttumst það, og í raun dregur tillaga hv. nefndar það fram, en reyndar er verið að kalla málið inn á milli 2. og 3. umr. Það var ekkert verið að hugsa þetta sem tímabundið úrræði, heldur átti að framlengja úrræðið til 2024 — til 2024, sem sýnir það að ríkisstjórnin og ríkisstjórnarflokkarnir ætluðu að notfæra sér ástandið, notfæra sér aðstæður til þess að viðhalda og fara til baka í gamaldags og úrelt kerfi.

Kreppan mikla á síðustu öld kenndi okkur að þegar þjóðir reyna að bregðast við efnahagslegum áföllum með hækkun tolla til þess að vernda innlendan markað þá leiðir það til stigvaxandi aðgerða viðskiptaþjóða, en ekki síður leiðir það til þess að það dregur úr milliríkjaverslun og getur lengt og dýpkað efnahagskreppuna. Það var nákvæmlega það sem gerðist í Bandaríkjunum. Aðgerðirnar lengdu efnahagskreppuna um sjö ár af því að múrar voru reistir. Viðreisn varar við nákvæmlega þessu. Förum aðrar leiðir til þess að vernda og styrkja bændur í þessu efni. Við eigum því að beita beinum styrkjum, hvötum í gegnum græna hvata til þess að styrkja bændurna okkar, en ekki í gegnum tollmúra. Þar liggur áhersla okkar.

Ég verð líka að segja að það hryggði mig mjög þegar ég sá umfjöllunina, málsmeðferðina af hálfu ráðherra og ráðuneytis, að þær málsmeðferðarreglur sem ríkisstjórnin sjálf hefur sett sér varðandi framlagningu frumvarpa voru allar brotnar. Það segir mér líka að fólk er að notfæra sér ástandið. Það segir mér líka að það eigi að keyra þetta í gegn, alveg óháð öllu, af því að við höfum fundið fyrir þrýstingi af hálfu hagsmunaaðila í landbúnaði. Það eru ekki bændurnir sjálfir, það eru afurðastöðvarnar, það eru milliliðirnir. Það kemur alveg skýrt fram í umsögn Samkeppniseftirlitsins að það hefur miklar áhyggjur af þessari aðgerð. Hvergi kemur fram nákvæmlega hvernig hún nýtist bændum beint heldur er þetta fyrst og fremst fyrir afurðastöðvarnar og við eigum ekki að vera með slíkan feluleik. En við megum heldur ekki gleyma því að aðhald bænda gagnvart afurðastöðvunum er að minnka. Þeirra áhrif eru að þverra gagnvart sjálfum afurðastöðvunum. Samningsstaða bænda, sauðfjárbænda sem dæmi, ekki síst síðasta haust, hefur versnað. Ég man líka að þegar slátrun hófst 2018 var afurðaverðið kynnt löngu síðar. Þær varnir sem eitt sinn voru eru alltaf að þverra og þær leiða til hærra verðs en ekki til hærra afurðaverðs til bænda. Það er það sem þetta gerir.

Við sáum það einmitt 2017 þegar erfiðar aðstæður voru í landbúnaði — jú, vissulega reyndu einhverjir þingmenn, sem enn eru hér, að þrýsta á um aukna útflutningsskyldu, sem þýðir ekkert annað en niðurgreiðslu íslenskra neytenda á útflutningi á landbúnaðarafurðum, sem var sem betur fer komið í veg fyrir. En þessar erfiðu aðstæður í landbúnaði á sínum tíma, og sem eru enn, hafa dregið fram erfiða stöðu bænda gagnvart afurðastöðvunum. Og hvað gerist þegar bændur sjálfir ætla að fara að beita sjálfsbjargarviðleitninni, sem þeir eru svo langfremstir í að gera, þ.e. að vera útsjónarsamir í því hvernig hægt er að nýta hráefnið og afurðirnar til nýsköpunar til annarrar framleiðslu en akkúrat afurðastöðvarnar sjálfar bjóða upp á? Þá eru heimtökugjöldin hækkuð hjá afurðastöðvunum þannig að bændur þurfa að greiða meira fyrir slátrun og fá minna til sín til að koma í veg fyrir samkeppni.

Ég deili þessum áhyggjum með Samkeppniseftirlitinu og fagna því að það eru fleiri innan stjórnarflokkanna sem deila þeim áhyggjum. Við eigum að nýta þann samhljóm sem komið hefur fram, m.a. í ræðum hér á undan, til þess að skoða hvernig við getum styrkt stöðu bænda gagnvart afurðastöðvunum þannig að staða þeirra verði sterkari, svo þeir fái hærra verð til sín og verði með meiri fyrirsjáanleika í rekstrinum. Við þurfum að skapa bændum möguleika og svigrúm gagnvart afurðastöðvunum sjálfum.

Í ESB er samruni leyfður, ákveðin samþjöppun leyfð, en með mjög miklu utanumhaldi og samtali milli bænda, neytenda, verslunar og stjórnvalda. Það eru mjög sterkar samrunareglur til staðar og mjög sterkum samkeppnisreglum er viðhaldið, kröfum og „instönsum“, og sett inn í þetta þannig að á endanum er verið að skapa rými fyrir minni mjólkurafurðastöðvar og passað upp á bændur þannig að þeir geti raunverulega nýtt sér samkeppnisrétt sinn, því að staða bænda getur verið sterk ef þeir hafa stöðu til að nýta samkeppnina af sinni hálfu. En leið stjórnarflokkanna finnst mér miða fyrst og fremst að kvaki og jarmi af hálfu afurðastöðvanna. Þær geta ekki lengur falið sig og sagt: Við erum jú í eigu bænda að forminu til, en þeir hafa engin áhrif. Ef það voru einhver símtöl og samtöl sem ég átti á árinu 2017, þann skamma tíma sem ég var landbúnaðarráðherra, og þau samtöl sem ég hef átt síðan þá, voru um nákvæmlega þetta sem bændur hafa kvartað undan, að þeir hafi engin áhrif varðandi þá sem við köllum oft og tíðum milliliði. Við verðum að horfast í augu við þetta. Þessa slæmu stöðu bænda eigum við einmitt að taka alvarlega.

Ég talaði um málsmeðferðarleiðina í þessu máli sem ríkisstjórnin hefur notað. Sjálft ráðuneytið braut allar reglur, fór ekki með málið í samráð. Ég spurði alla þá sem komu: Var haft samráð við ykkur? ASÍ svaraði: Nei. Neytendasamtökin svöruðu: Nei. Samkeppniseftirlitið svaraði: Nei, enda er samkeppni hvergi uppi á borðum hjá ríkisstjórnarflokkunum. Og ég ætla ekki einu sinni að tala um Samtök verslunar og þjónustu og Félag atvinnurekenda. Það er ekkert samráð haft við þá aðila, en heldur ekki Neytendasamtökin, ekki ASÍ og ekki Samkeppniseftirlitið, sem ég hefði haldið að væri á gátlista hverrar ríkisstjórnar og hvers stjórnvalds. En þegar menn hafa ekki hagsmuni bænda, hvað þá neytenda, ofarlega í huga er þetta niðurstaðan, að reisa tollmúra og hlaupa eftir því sem verið er að kvaka eftir, þrýsta á. Mér finnst það bara ekki boðlegt á árinu 2020. Ég hefði gjarnan viljað hafa getað sagt hér áður en hv. þm. Haraldur Benediktsson flutti ræðu sína, að það hefði mátt treysta því að þegar kæmi að frjálsum viðskiptum, eins og raunar öðrum frelsismálum á þessu kjörtímabili, að ekki væri breiðan stuðning að finna varðandi þessa þætti innan Sjálfstæðisflokksins.

En ég ætla að leyfa mér að milda þetta orðalag og segja að ég er miklu frekar vongóð um að menn sjái að sér og stoppi þetta mál, taki það til baka um leið og meiri hlutinn og nefndin skoðar dagsetninguna, sem ég veit að situr í einhverjum stjórnarþingmönnum af því að þetta opinberar svo ótrúlega vel hvernig verið er að nota ferðina í þessu máli til að þrengja að hagsmunum neytenda, til að auka tollvernd og efla tollmúra. Þá vona ég um leið að nefndin sjái að sér og bíði með þetta mál og fari frekar strax í beinar aðgerðir fyrir bændur. Við höfum sýnt að við erum fljót að afgreiða slík mál, stjórnarandstaðan, við í Viðreisn, við höfum sýnt fram á að við höfum verið úrræðagóð. Við höfum komið með lausnir, tillögur sem margar hverjar hafa verið felldar, einhverjar hafa verið samþykktar, til að taka á brýnum vanda vegna Covid, vegna veirunnar. Við höfum sýnt það með tillögum okkar fyrir veitingahúsin, fyrir listamenn, fyrir ferðaþjónustuna og við viljum og höfum líka lagt fram tillögur okkar fyrir bændur. Það þurfum við að gera. Við þurfum að taka á alvarlegri stöðu bænda. En þetta, virðulegi forseti, er ekki leiðin.