151. löggjafarþing — 40. fundur,  17. des. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[20:28]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Það er í raun tvennt sem mig langar að segja um þessa atkvæðagreiðslu um fjármálaáætlun á óvissutímum. Það er í fyrsta lagi að faraldurinn hefur sýnt okkur hve mikilvægt var að ráðast í þá uppbyggingu sem þessi ríkisstjórn ákvað að ráðast í í upphafi kjörtímabilsins á hinum samfélagslegu innviðum, heilbrigðiskerfinu, menntakerfinu og öðrum innviðum, og hvað þessir innviðir allir hafa sannað styrk sinn í gegnum þessa gríðarlegu ágjöf. Hins vegar munu þær ráðstafanir sem hér eru í fjármálaáætlun, fjárlögum og fjárauka þessa árs verða til þess að við munum spyrna hratt frá botni og tryggja að íslenskt samfélag bíði ekki skaða af þeirri miklu ágjöf sem við stöndum frammi fyrir. Til þess beitum við ríkisfjármálunum af þessum mikla krafti. Ég held að þetta sé hárrétt efnahagsstefna, herra forseti, og ég held að hún verði farsæl fyrir íslenskt samfélag og íslenskan almenning.