151. löggjafarþing — 42. fundur,  18. des. 2020.

kynrænt sjálfræði.

22. mál
[11:03]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Steinunni Þóru Árnadóttur fyrir ræðuna. Það er tvennt sem mig langar til að spyrja hv. þingmann út í. Í fyrsta lagi: Hver er afstaða þingmannsins til þessarar svokölluðu sérreglu sem snýr að vanvexti í typpi og of stuttri þvagrás? Telur hv. þingmaður að sú sérregla sé skynsamleg og ætti að vera í reglunum, eða telur hv. þingmaður að það ætti að fella hana út? Þá er ég ekki að spyrja hv. þingmann hvort skynsamlegt sé að setja þetta í eitthvert nefndarstarf að lögunum samþykktum, eins og þegar er búið að ramma inn gagnvart ferlinu, heldur hvort hv. þingmaður telji að þessi sérregla eigi að vera viðvarandi eða ekki.

Hitt atriðið sem mig langaði að spyrja hv. þingmann um snýr að fæðingarkvilla drengja sem ekki er tilgreindur undir þessari sérreglu. Nú langar mig að taka dæmi um einn slíkan kvilla sem er klofið typpi. Hvenær telur hv. þingmaður að drengur sem fæðist með klofið typpi hafi nægjanlega þroska og skilning til að taka þá ákvörðun sjálfur að hann vilji fá fæðingarkvillann lagfærðan? Því að þarna gæti verið um að ræða dreng sem enginn vafi leikur á hvors kyns er.