151. löggjafarþing — 42. fundur,  18. des. 2020.

horfur um afhendingu bóluefnis vegna Covid-19, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[12:54]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Herra forseti. Það er náttúrlega ótrúlegt þegar horft er til þess að núna, um 11 mánuðum eftir að byrjað var að reyna að finna leiðina að lausn vandans með bóluefni, skulum við vera komin á þann stað að þrír til fjórir aðilar séu í rauninni á lokametrunum að koma með vöru á markað sem virkar og getur hjálpað okkur í baráttunni við þennan sjúkdóm. Ráðherra hefur farið yfir hvaða aðilar þetta eru þannig að kannski er ekki ástæða til að tíunda það. Hins vegar hefur mikið verið rætt hér um einn aðilann, þ.e. Pfizer og BioNTech og bóluefnið frá þeim. Það er auðvitað mikilvægt sem hæstv. ráðherra kom inn á áðan að það er aðeins einn af þeim aðilum — og þó að meintir hnökrar, skulum við kalla það, séu á dreifingu eða framleiðslu hjá einum aðila skemmir það ekki alla myndina. Það undirstrikar einmitt mikilvægi þess að við séum ekki með öll eggin í sömu körfunni, að við ræðum við marga aðila. Það er ástæða til að hrósa ráðuneytinu og hæstv. ráðherra sérstaklega fyrir það. Þetta skiptir gríðarlega miklu máli.

Það sem mig langar hins vegar að spyrja hæstv. ráðherra er hvort ráðherrann eða ráðuneytið hafi upplýsingar um hvernig gangi hjá hinum aðilunum, hvort framleiðsluferli hjá þeim, þá kannski sérstaklega AstraZeneca, sé komið jafn langt og hefur verið fleygt í fjölmiðlum. Það er mikilvægt að vita það, m.a. vegna þess að bóluefnið frá AstraZeneca er hefðbundnara en hin bóluefnin. Það ætti þess vegna að vera auðveldari tækni að mörgu leyti eða a.m.k. þekkt tækni sem ætti þá að minnka líkurnar á hnökrum. Að auki er bóluefni þeirra auðveldara í flutningi.