151. löggjafarþing — 42. fundur,  18. des. 2020.

horfur um afhendingu bóluefnis vegna Covid-19, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[13:00]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég deili algjörlega þeirri sýn hv. þingmanns og ég held að hún sé skýr og mikilvæg, þ.e. að við sjáum fyrir okkur hvernig þessi tvö verkefni kallist á, annars vegar bólusetningin og hins vegar sóttvarnaráðstafanir. Það er líka rétt sem hv. þingmaður segir að meginmarkmið okkar í baráttunni við faraldurinn hefur allan tímann verið að varðveita líf og heilsu okkar viðkvæmustu hópa og að gæta þess að heilbrigðiskerfið ráði við álagið. Það gefur augaleið að eftir því sem bólusetningu vindur fram eru það nákvæmlega þessir þættir sem við skoðum, þ.e. þegar við erum að bólusetja viðkvæmustu hópana okkar og þegar við horfumst í augu við að minni líkur eru á að þeir hópar smitist af Covid og þar af leiðandi verður mögulega minna álag á heilbrigðisþjónustuna. Þetta er allt rétt.

Ég er líka þeirrar skoðunar, eins og hv. þingmaður nefnir, að mikilvægt er að við getum sagt sem mest um þessa hluti. Við höfum búið við þá gæfu, Íslendingar, að hafa afskaplega góð sóttvarnayfirvöld — og er ég þá sjálf undanskilin vegna þess að ekki færi vel á því að ég væri að sproksetja sjálfa mig hér. En ég er að tala um að forysta sóttvarnalæknis hefur verið mjög farsæl, þ.e. hann hefur verið með skynsamlega og góða ráðgjöf. Stundum hefur verið ágreiningur um það, eða eiginlega alltaf, en samt sem áður hefur það verið þannig að Ísland er á mjög góðum stað. Við njótum þess líka mjög vel að vera fámennt eyríki. Við höfum í raun og veru ákveðna forgjöf vegna þess að við erum líka upplýst lýðræðissamfélag með sterka innviði og góða heilbrigðisþjónustu. Við höfum þá forgjöf að geta hreyft okkur hratt og geta tekið við upplýsingum með opnum huga. Þannig verður þetta áfram, við verðum áfram að vera mjög sveigjanleg í því hvernig við bregðumst við. En við þurfum kannski fyrst og fremst að gæta þess að vera bjartsýn (Forseti hringir.) en um leið að sýna úthald og seiglu. Ég held að það sé eiginlega nákvæmlega þannig sem ég get svarað hv. þingmanni.