151. löggjafarþing — 44. fundur,  18. jan. 2021.

málefni atvinnulausra.

[15:07]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegi forseti. Nú á föstudaginn birti Vinnumálastofnun tölur um atvinnuleysi í desembermánuði síðastliðnum. Þær tölur eru því miður dapurlegar. Almennt atvinnuleysi jókst lítillega á landsvísu, er 10,7% en var 10,6% í nóvember. Þannig voru 21.000 manns án atvinnu í lok ársins. Rúmlega 5.000 einstaklingar voru svo á hlutabótum. Ef við tökum þennan hóp með er heildaratvinnuleysi 12,1%. Samtals eru þannig yfir 26.400 manns alveg án atvinnu eða að hluta. Ríflega 4.000 manns hafa verið án vinnu í meira en eitt ár og 6.600 án vinnu í 6–12 mánuði. Samtals hafa því tæplega 11.000 verið án vinnu lengur en hálft ár. Sambærileg tala í desember 2019 var 3.800. Þannig glíma nærri þrisvar sinnum fleiri við langtímaatvinnuleysi nú en 2019. Atvinnuleysi er mest á Suðurnesjum, yfir 26% meðal kvenna og rúmlega 21% meðal karla. Það er næstmest á höfuðborgarsvæðinu, karlar í meiri hluta, 12%, og konur 11,5%.

Nú stefnir í að fleiri hundruð falli af bótum á þessu ári. Það fólk verður þá að segja sig til sveitar, leita í framfærslu sveitarfélaga. Bara í Reykjanesbæ munu það að öllu óbreyttu verða um 200 manns á árinu sem nú er að hefjast. Þetta eru hrikalegar tölur og bak við þær standa manneskjur, 1.000 borgarar í þessu landi. Áhyggjur af afkomu og fátækt, fólk sér fram á að stefna í fátæktargildru með börnin sín. Við í Flokki fólksins viljum að öllum tiltækum ráðum verði beitt til að bjarga þessu fólki meðan við erum að komast út úr Covid-19 kófinu. Ég spyr því hæstv. félagsmálaráðherra: Hyggst ríkisstjórnin og ráðuneyti hans skoða þann möguleika að lengja tímabil atvinnuleysisbóta úr 30 mánuðum sem það er nú þannig að einhver von sé fyrir þetta fólk að lenda ekki í sárafátækt?