151. löggjafarþing — 44. fundur,  18. jan. 2021.

aurskriður á Austurlandi.

[15:47]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson):

Hæstv. forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni og þakka fyrir brýninguna til ríkisstjórnarinnar. Við settum einmitt aukin fjárframlög til ofanflóðavarna frá og með árinu í ár, jukum þær fjárheimildir um 1,6 milljarða. Það var tillaga ríkisstjórnarinnar og hún var samþykkt hér á Alþingi. Það er mjög ánægjulegt að það skref hafi verið stigið. Ég vil aðeins taka upp punktinn um loftslagsbreytingar og hvernig við getum verið undirbúin fyrir breytingar í framtíðinni. Það er kannski erfitt að tengja einstaka viðburði eins og þennan beint við loftslagsbreytingar, en við vitum þó að sífreri í fjallshlíðum er líklegur til að minnka með hækkandi hitastigi og aukinni úrkomu, meiri rigningu í stað snjókomu. Þetta eru allt þættir sem horfa þarf á í þessu samhengi. Þetta er hluti af því að aðlagast þessum breytingum. Vinna er komin í gang. Starfshópur umhverfis- og auðlindaráðuneytisins og nokkurra annarra ráðuneyta er að vinna að stefnu um aðlögun að loftslagsbreytingum og á grundvelli hennar verður síðan unnin aðgerðaáætlun. Þetta mun allt skipta máli til að takast á við þessar áskoranir.