151. löggjafarþing — 44. fundur,  18. jan. 2021.

sala á hlut ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[17:45]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Að einkavæða banka korteri fyrir kosningar er stórmál. Að einkavæða banka í 100 ára djúpri kreppu er einfaldlega vont mál. Þessi hraði og þessi tímasetning sem hv. þingmaður telur vera svo heppilega, hefur tvennt í för með sér: Við fáum verra verð fyrir hlutinn og við fáum verri kaupendur. Það er 100 ára kreppa í gangi. Ég veit ekki hvort hv. þingmaður hefur tekið eftir því. Það er ekkert annað ríki í heiminum að selja eignarhluti sína í banka og það eru fjölmörg ríki í Evrópu sem eiga eignarhlut í banka. Ríkið fær augljóslega ekki fullt verð fyrir söluna á þessum tíma. Hv. þingmaður sagði í ræðu sinni rétt áðan að tilboðum verði ekki tekið nema ásættanlegt verð fáist fyrir hlutinn. Þá spyr ég: Hvað er ásættanlegt verð? Við vitum það ekkert. Hv. þingmaður gæti upplýst þingheim um það því að ef hann ætlar að taka upplýsta ákvörðun um að geta tekið tilboði með ásættanlegu verði þá hlýtur hann að vita verðið. Hvernig getur hv. þingmaður vitað það þegar við vitum að allt að 20% af eignasafni Íslandsbanka eru í greiðslustöðvun? Þessi hraði vekur upp spurningar og það er rétt að tortryggja ferlið. Sporin hræða.

Hv. þingmaður varð tíðrætt um stefnu Vinstri grænna hvað þetta varðar og talaði um að það væri stefna Vinstri grænna að halda Landsbankanum. Ég veit ekki betur en að í nýsamþykktum fjárlögum sé einfaldlega heimild, sem hv. þingmaður samþykkti, um að það megi selja allt að 30% í Landsbankanum. Ég veit ekki betur en að í stefnu Vinstri grænna sé afskaplega skýrt kveðið á um að það beri að aðskilja fjárfestingarbanka og viðskiptabanka. Það stendur ekki steinn yfir steini hjá Vinstri grænum í þessu máli og ég skil ekki af hverju Vinstri grænir láta draga sig í þennan leiðangur rétt fyrir kosningar með illa undirbúið mál þar sem umræðan er engan veginn þroskuð og það er ekkert sérstakt ákall úti í samfélaginu um að þau taki þetta skref. (Forseti hringir.) Þetta er ámælisvert og þið þurfið að standa miklu fastari fótum hvað varðar þau rök ef þið ætla að sannfæra þjóð og þing um að þetta sé rétt.